Atvinnulíf

„Flestir geri ráð fyrir erfiðum vetri“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Frá vinstri: Gunnar B. Sigurgeirsson, Maron Kristofersson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Kristín Lind Sveinsdóttir.
Frá vinstri: Gunnar B. Sigurgeirsson, Maron Kristofersson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Kristín Lind Sveinsdóttir.

Það hefur áhrif að enginn gjaldeyrir er að koma inn í landið og veturinn verður þungur er meðal þess sem fram kemur hjá viðmælendum Atvinnulífsins í dag. Hið opinbera getur ýmislegt gert til að styðja betur við innlenda framleiðslu og samkeppnin við vörur á alþjóðamarkaði harðnar. En það eru líka blómlegir tímar. Grænmetisbændur eru sumir að stækka við sig og þar er útflutningur að aukast svo dæmi sé tekið. Mestu skiptir þó að styrkja innlenda hagkerfið segja viðmælendur og mynda þannig samfellda keðju. 

Tilefni umfjöllunar Atvinnulífsins á Vísi í dag og á morgun er átakið Íslenskt – láttu það ganga. Í þessari fyrstu grein af þremur tökum við púlsinn á nokkrum forsvarsmönnum fyrirtækja sem voru beðnir um að svara eftirfarandi spurningu:

Hvernig er staðan hjá ykkur  og hvaða væntingar hefur þú til þess hverju átakið Íslenskt – láttu það ganga muni skila?

Fengum á okkur högg en erum þakklát

Guðrún Hafsteinsdóttir, Kjörís

Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís í Hveragerði: 

„Staðan hjá okkur er bara þokkaleg. 

Við erum ánægð með sumarið og þakklát Íslendingum fyrir að hafa stutt við bakið á okkur með því að vera dugleg að borða ís. 

Við fengum á okkur mikið högg í upphafi veirunnar þegar að við misstum nánast á einum degi öll veitingahúsin. 

Sömuleiðis fækkaði heimsóknum í ísbúðirnar en þetta jafnaði sig í sumar. 

Það er samt alveg ljóst að veturinn verður þungur. 

Kostnaðarhækkanir og launahækkanir síðustu misseri hafa reynst íslenskum framleiðslufyrirtækjum þung og við sem erum á þeim enda að vera á smásölumarkaði þurfum að bera þann kostnað sjálf. Og það þýðir bara eitt: Við verðum að draga úr kostnaði.

Við erum rúmlega fimmtíu ára gamalt fyrirtæki og þetta er ekki fyrsta kreppan sem við erum að fara í og væntanlega ekki sú síðasta. Við búum hins vegar svo vel að því að vera með frábæran hóp af starfsfólki sem hefur alltaf verið tilbúið til að fara í gegnum þessa skafla með okkur. Við eigum líka traustan viðskiptavinahóp sem heldur áfram að borða ís sama á hverju gengur,“ segir Guðrún.

„Svona búum við til samfellda keðju“

Þegar maður rekur fyrirtæki, sérstaklega í litu samfélagi fyrir utan borgina, þá finnur maður áþreifanlega fyrir því þegar viðskiptavinur velur okkar vöru. Hvert einasta val skiptir máli og hver einasti viðskiptavinur skiptir máli. Í raun snýst átak eins og Láttu það ganga um einmitt það.  

Sjálf er ég til dæmis stödd á Austurlandi. Ég heimsótti bóndabæ í Vallanesi og keypti þar sultu úr íslenskum aðalbláberjum á laugardaginn. Þegar ég var þar var ég eini viðskiptavinurinn. En bara það að ég hafi ákveðið að fara þangað skiptir máli, alveg eins og það skiptir máli að fara í bakaríið í Fellabæ og kaupa sjúklega góðu flatkökurnar þeirra. Að skilja eitthvað eftir á þeim stöðum þar sem við komum skiptir máli. Líka þegar að við veljum vörur í Hagkaup í Skeifunni.

Að kaupa tómata á Friðheimum þýðir að þar geta þau í kjölfarið keypt þjónustu af iðnaðarmönnum sem síðan skella sér í klippingu, gera sér glaðan dag og fara út að borða á Míka. Svona búum við til samfellda keðju svo ekki sé talað um hvernig við minnkum kolefnasporið. 

Það eru mun umhverfisvænni kaup þegar ég fer á inniskónnum til Kristófers í næsta húsi og kaupi jarðaber í samanburði við að kaupa innflutt ber hinum megin af hnettinum, “ segir Guðrún.

Íslensk framleiðsla ekki sjálfsagt mál

Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar:

Gunnar B. Sigurgeirsson, Ölgerðin.

„Staða Ölgerðarinnar er með ágætum, enda erum við með nokkur af þekktustu vörumerkjum landsins í drykkjarvörum og erum sífellt að leita leiða til þess að svara breyttum þörfum neytenda og stundum því öfluga vöruþróun. 

Við erum að keppa við innfluttar vörur sem framleiddar eru fyrir miklu stærri markaðssvæði og það er ekki sjálfgefið að við getum hreinlega keppt við þessi merki.

Við tökum því stundum sem gefnu að það séu framleiddar íslenskar vörur en það er alls ekki sjálfsagt mál. Til þess að eiga möguleika þá þurfum við standa okkur vel og framleiða góðar vörur á samkeppnishæfu verði.

Það er mikið úrval af drykkjarvöru á Íslandi og íslenska framleiðslan okkar er að keppa við mikið úrval innfluttra vörumerkja. Við framleiðum til að mynda alíslenskan Kristal með íslensku gæðavatni og þar erum við meðal annars að keppa við innflutta vatnsdrykki. Sama má segja um okkar íslenska Pepsi og Pepsi Max og svo aðra útlenda og innflutta kóladrykki. En viðbrögð neytenda sýna líka að okkar vörur í þessum flokkum njóta mikilla og vaxandi vinsælda. 

Núna í ár eru til dæmis tveir mest seldu gosdrykkir landsins frá Ölgerðinni og eru framleiddir á Íslandi, Pepsi Max og Kristall. Hlutdeild innlendrar framleiðslu í þessum geira fer því vaxandi og það er fagnaðarefni.

Vöruþróun hjá okkur hefur líka gengið vel og þannig má t.d. nefna kollagendrykkinn COLLAB, sem hefur náð að festa sig vel í sessi á stuttum tíma. Síðan er Floridana, eina stóra safavörumerkið sem tappað er á Íslandi, með yfirburða hlutdeild á þeim markaði. Við erum auðvitað afar þakklát fyrir þennan árangur og höldum okkar striki að bjóða upp á íslenskar gæðavörur á drykkjarvörumarkaði,“ segir Gunnar.

„Margt sem að hið opinbera getur gert“

„Allir íslenskir framleiðendur hljóta að hafa væntingar þegar farið er í átak sem þetta. Tilgangurinn er jú ekki aðeins að minna neytendur á að versla á Íslandi, heldur einnig að velja íslenskrar vörur. Íslensk verslun gengur vel, enda lítið sem ekkert um ferðalög til útlanda og erfiðara en oft áður að versla í erlendum vefverslunum. Væntingar okkar hljóta því að vera að neytendur velji frekar íslenskt en erlent. Það má nefnilega líka hægt að benda á að það að drykkjarvörur séu framleiddar hér heima skiptir ekki eingöngu máli út frá efnahagslegum sjónarmiðum heldur er einnig umhverfislegur ávinningur. Það að að velja íslenskt, þegar það er í boði, skiptir okkur því miklu máli.

Það er margt sem að hið opinbera getur gert til þess að greiða götu íslenskrar framleiðslu. Það er til dæmis hægt að skoða reglugerðir og merkingar á vörum. Neytendur þurfa að geta áttað sig á hvar varan er framleidd. Það er mikilvægt að merkingar á matvörum séu þannig að fólk geti áttað sig á hvort um íslenska vöru sé að ræða eða ekki. Þetta gæti hið opinbera skoðað sérstaklega. Það er til lítils að fara í átak með íslenskar vörur ef það er ekki ljóst hvort að vörur séu framleiddar á Íslandi eða ekki.

Við höfum trú á því að íslensk framleiðsluvara, líkt og sú sem að ölgerðin framleiðir, muni styrkja sig í sessi á komandi misserum. Við ætlum heldur ekki að slá slöku við í vöruþróun og það eru marga spennandi nýjungar í farvatninu og ég er viss um að þær muni hjálpa okkur til að styrkja okkar stöðu enn frekar,“ segir Gunnar.

Margir að stækka við sig í grænmetinu

Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjumanna.

Krisín Linda Sveinsdóttir, Sölufélagi garðyrkjubænda.

„Staðan hjá okkur er fín og sumarið hefur verið gott hjá grænmetisbændum. Nú eru þeir í óða önn að taka upp síðustu uppskeruna af ökrunum fyrir veturinn og koma henni inn í sínar kæligeymslur.

Sumir hafa farið í þau stóru verkefni að stækka framleiðsluna og byggja ný gróðurhús má þar nefna garðyrkjustöðvarnar Friðheima, Gufuhlíð og Laugaland. 

Fyrstu uppskeru úr nýju gróðurhúsi er að vænta mögulega í nóvember eða desember á þessu ári. Gróðurhúsaræktun er hátæknigrein og er mjög gaman að segja frá því að íslenskir grænmetisbændur eru með þeim fremstu í heimi hvað þekkingu og tækni varðar.

Bændur í útirækt hafa einnig farið út í það að stækka akra sína í ár til að koma til móts við aukna eftirspurn. Alltaf gaman að segja frá þegar nýjar útiræktategundir hafa náð að hasla sér völl hér á landi og gengið vel í ræktun. Dæmi um slíkar tegundir er toppkál, Romanesco kál og hinar ljúffengu regnbogagulrætur sem notið hafa mikilla vinsælda,“ segir Kristín.

„Útflutningur hefur aukist jafnt og þétt“ 

Bragðgæði íslenska grænmetisins eru til komin vegna hreina vatnsins og loftsins? Þau stafa einnig af því að grænmetið fær að þroskast á eðlilegum hraða. Stuttar dreifileiðir frá bónda til neytenda spila stórt hlutverk. Sölufélag garðyrkjumanna kolefnisjafnar líka allan grænmetisflutning frá bónda til neytenda alla leið inn í verslanir.

Við verðum alltaf meira vör við áhuga neytenda og kaupmanna á innlendri ræktun og jákvæðu viðhorfi gagnvart íslenskum grænmetisbændum. 

Einnig höfum við fundið fyrir auknum áhuga á íslensku grænmeti frá Grænlandi, Færeyjum og Danmörku. Útflutningur hefur aukist jafnt og þétt eftir því sem framboð leyfir. Við erum sérstaklega ánægð með að geta boðið Grænlendingum upp á brakandi ferskt íslenskt grænmeti.

Við erum mjög ánægð með átakið Láttu það ganga finnst það vel unnið og útfært. Fyrir okkar hönd þá vonum við svo sannarlega til þess að það muni vekja alla til umhugsunar um að kaupa íslenskar vörur og afurðir. Íslenskt grænmeti er í stöðugri samkeppni við innflutt grænmeti og því fögnum við þessu átaki,“ segir Kristín.

„Alþjóðasamkeppni harðnað verulega“

Maron Kristofersson, aha.is

Maron Kristófersson, framkvæmdastjóri aha.is :

Þessi skilaboð eru mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr, enda hefur alþjóðasamkeppni harðnað verulega í verslun, markaðssetningu og þjónustu á netinu og ekki ólíklegt að við sjáum mun breiðara úrval af ólíkum þjónustum bætast við alþjóðaframboðið í kjölfar Covid-19.

Við hjá aha.is getum ekki kvartað sem stendur enda höfum við fundið fyrir verulegri aukningu umfram áætlanir hjá okkur.

Hins vegar finnum við að hljóðið í veitinga- og ferðaþjónustunni er þungt. 

Þar fyrir utan held ég að flestir geri ráð fyrir erfiðum vetri framundan enda bitna margfeldisáhrif hruns í ferðamennsku, færri starfa og þess að fólk hefur minna á milli handanna á öllum landsmönnum sama í hvaða geira þeir starfa," segir Maron.

Enginn gjaldeyrir hefur áhrif

„Við megum vera ótrúlega stolt af þeirri verslun og þjónustu sem hefur verið byggð upp hér frá hruni og er nú á heimsmælikvarða.

Það er því sérstaklega mikilvægt, þegar þessa innstreymis gjaldeyris nýtur ekki við, að við styðjum við innlenda verslun og þjónustu og gerum okkar besta til að halda þessari hringrás hér innanlands þar til birtir á ný. 

Sé fólk smeykt við að fara í verslun eða á veitingastaði, er hægt að styrkja viðkomandi fyrirtæki og starfsmenn þess með því að panta á netinu og sækja eða fá sent heim,“ segir Maron.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×