Körfubolti

Denver neitar enn og aftur að gefast upp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamal Murray átti frábæran leik gegn Los Angeles Lakers í nótt.
Jamal Murray átti frábæran leik gegn Los Angeles Lakers í nótt. getty/AAron Ontiveroz

Denver Nuggets minnkaði muninn í einvíginu gegn Los Angeles Lakers í úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta með 114-106 sigri í leik liðanna í nótt. Staðan í einvíginu er nú 2-1, Lakers í vil.

Denver hefur tvisvar komið til baka eftir að hafa lent 3-1 undir í úrslitakeppninni og sýndi í leiknum í nótt að liðið kann hreinlega ekki að leggja árar í bát.

Lakers vann síðasta leik liðanna með flautukörfu Anthonys Davis og hefði getað komist í 3-0 með sigri í leiknum í nótt. Ekkert lið hefur komið til baka eftir að hafa lent 3-0 undir í sögu NBA.  

Jamal Murray skoraði 28 stig fyrir Denver, tók átta fráköst og gaf tólf stoðsendingar. Hann setti niður tvær þriggja stiga körfur undir lok leiks sem hjálpuðu Denver að landa sigrinum.

Denver fékk gríðarlega mikilvægt framlag frá Jerami Grant sem skoraði 26 stig. Nikola Jokic skoraði 22 stig og tók tíu fráköst.

LeBron James var með þrefalda tvennu í liði Lakers; 30 stig, tíu fráköst og ellefu stoðsendingar. Davis skoraði 27 stig en tók aðeins tvö fráköst. Denver vann frákastabaráttuna í leiknum, 44-25.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×