Atvinnulíf

Ráðningar í stjórnunarstörf: Algeng mistök fyrirtækjaeigenda

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það getur gert hæfan stjórnanda gráhærðan ef eigandinn andar ofan í hálsmálið á viðkomandi alla daga.
Það getur gert hæfan stjórnanda gráhærðan ef eigandinn andar ofan í hálsmálið á viðkomandi alla daga. Vísir/Getty

Stofnendur eða eigendur fyrirtækja eru ekkert endilega þeir bestu til að stýra skútunni í rekstri. Þekking, styrkleikar eða hæfni þeirra getur til dæmis falist í því að fylgja eftir hugmynd þannig að hún verði að veruleika, sem er allt annað en það að vera góður í rekstri og stjórnun.

Þegar að því kemur að ráða í fyrstu stjórnunarstörfin hefur fyrirtækjaeigandanum oft dreymt um það lengi. Enda er það lýjandi til lengdar að ganga í öll störf: Sjá um markaðsmálin, sölumálin, fjármálin, mannauðsmálin, þjónustu við viðskiptavini, vöruþróun o.s.frv.

En hér þarf að varast algeng mistök.

Þau mistök sem sögð eru hvað algengust í stjórnendaráðningum fyrirtækjaeigenda eru eftirfarandi:

1. Að ráða einhvern sem þú þekkir eða er eins og þú sjálf/ur

Það er ekkert endilega fyrirtækinu fyrir bestu að ráða fyrsta einstaklinginn í stjórnunarstöðu sem er í raun eins og eigandinn sjálfur. Með svipað viðhorf, reynslu og þekkingu. Frekar ætti að horfa til stjórnanda sem býr yfir styrkleikum á einhverjum öðrum sviðum en eigandinn.

Þá er algengt að sá fyrsti sem hlýtur stjórnendatitil innan fyrirtækisins sé einhver sem hefur fylgt fyrirtækinu eftir lengi. Oft eru þetta einstaklingar úr meðstofnendahópi eða starfsmaður sem hefur starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi. Þessir aðilar eru þó ekkert frekar en stofnandinn sjálfur, bestu aðilarnir í tiltekin stjórnunarstörf.

Í litlum fyrirtækjum er ekki alltaf val um að ráða utanaðkomandi stjórnendur strax. Ef sú er raunin, er gott fyrir fyrirtækjaeigandann að ræða við viðkomandi í upphafi um að stöðuveitingin er hugsuð sem tímabundin. 

2. Reynsluleysi í ráðningum

Að velja réttan aðila í starf á við um allar ráðningar en hjá stofnendum fyrirtækja gætir oft ákveðið reynsluleysi í ráðningum.

Í ráðningu fyrsta stjórnandans inn í fyrirtækið gæti útgangspunkturinn til dæmis verið sá að finna aðila sem er líklegur til að hafa getu til að koma fyrirtækinu á næsta vaxtarstig. Ef svo er, ættu lítil fyrirtæki ekki að ráða til sín stjórnanda sem kemur úr mjög stóru eða fjölmennu fyrirtæki því þeirra stjórnunarreynsla nýtist ekkert endilega vel í fimm manna fyrirtæki í uppbyggingarfasa. 

Oft er tímaleysi líka um að kenna að ekki er ráðinn besti aðilinn í starfið. Það skýrist einfaldlega að því að þegar loksins er tekin ákvörðun um að ráða í stjórnunarstarfið, er staðan orðin þannig að viðkomandi þarf helst að byrja í gær.

3. Að sleppa takinu

Að sleppa takinu reynist oft erfið áskorun fyrir fyrirtækjaeigendur sem eru vanir því að sjá um allt sjálfir eða ráða öllu sjálfir. Fyrir vikið falla margir í þá gryfju að vera með puttana í öllu sem nýi stjórnandinn gerir. Eða það sem verra er: Vilja helst að viðkomandi stjórni eða taki ákvarðanir eins og hann/hún sjálfur hefði gert.

Að sleppa takinu er ákvörðun sem fyrirtækjaeigendur þurfa að gera upp við sig áður en ráðning fer fram. Þar er í góðu lagi að gefa sér tíma í að læra að treysta viðkomandi en aðalmálið er þó að gefa nýjum stjórnanda svigrúm til að sanna sig. Það getur gert hæfan stjórnanda gráhærðan ef eigandinn andar ofan í hálsmálið honum upp á hvern dag.


Tengdar fréttir

Helstu einkenni og afleiðingar óttastjórnunar á vinnustöðum

Ef skaðinn er skeður þarf að hreinsa til í stjórnendahópnum segir Bjarni Snæbjörn Jónsson í viðtali um óttastjórnun á vinnustöðum. Hann bendir hins vegar á að það er ekki alltaf svo að rót vandans liggi hjá stjórnanda.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.