Handbolti

Birna fékk skot í höfuðið: „Mér finnst þetta stórhættulegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Eyjakonur og Sólveig Lára Kristjánsdóttir huga að Birnu Berg Haraldsdóttur sem fékk boltann í höfuðið.
Eyjakonur og Sólveig Lára Kristjánsdóttir huga að Birnu Berg Haraldsdóttur sem fékk boltann í höfuðið. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Það er enginn að reyna að skjóta í höfuðið á neinum en þetta er hræðilegt og ég vona að það sé í lagi með Birnu,“ segir Sigurlaug Rúnarsdóttir sem vill breyta fyrirkomulagi aukakasta í lok handboltaleikja.

Birna Berg Haraldsdóttir fékk skot beint í höfuðið þegar Sólveig Lára Kristjánsdóttir freistaði þess að tryggja KA/Þór sigur gegn ÍBV í lok leiks liðanna í Olís-deildinni um helgina, en leikurinn fór 21-21. Sólveig tók aukakast af löngu færi á lokasekúndunni, og venju samkvæmt stilltu Eyjakonur sér upp í varnarvegg fyrir framan hana.

„Þetta er óviljaverk og bara klaufalegt. Hún á bara að bomba þessu yfir þær, frekar en að bomba í greyið Birnu,“ segir Sunneva Einarsdóttir, sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport.

Sólveig fékk rautt spjald en það breytir því ekki að Birna fékk þungt höfuðhögg:

„Þetta væri ég til í að sjá tekið út úr handbolta – þetta lokaaukakast. Mér finnst þetta stórhættulegt. Ég myndi frekar vilja sjá einhverja aðra lausn á þessu, frekar en að sjá menn standa þarna beint fyrir framan. Frekar þá frítt skot af 12-14 metra færi. Það er kannski ekki hægt að sleppa þessu því þá fáum við grófari brot,“ segir Sigurlaug.

„Í 90% tilvika endar boltinn í andlitinu á fólki,“ segir Sunneva en innslagið má sjá hér að neðan.

„Það er enginn að reyna að skjóta í höfuðið á neinum en þetta er náttúrulega hræðilegt og ég vona að það sé bara í lagi með Birnu eftir þetta, því þetta er stutt færi og hún neglir í hana. Þetta getur orðið mjög alvarlegt,“ segir Sigurlaug.

Klippa: Seinni bylgjan - Fékk aukakast í andlitið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×