Handbolti

Guðmundur kom sérfræðingunum á óvart: Langbestur af þeim sem komu heim

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhann Gunnar Einarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson fóru á kostum í Seinni bylgjunni á laugardagskvöld.
Jóhann Gunnar Einarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson fóru á kostum í Seinni bylgjunni á laugardagskvöld. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Hann var langbesti leikmaðurinn hjá Selfossi í þessum leik,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson um Guðmund Hólmar Helgason sem sneri aftur í Olís-deildina í handbolta með stæl um helgina.

Guðmundur Hólmar, sem er Akureyringur, lék með Val áður en hann fór í atvinnumennsku árið 2016. Hann lék með Cesson-Rennes í Frakklandi og svo West Wien í Austurríki áður en hann kom aftur til Íslands í sumar og gekk í raðir Selfoss. Guðmundur Hólmar var til umræðu í fjörugum þætti af Seinni bylgjunni á laugardag:

„Hann er alveg tilbúinn. Það eru mikil viðbrigði að koma heim. Ekki bara í handboltann hérna, heldur ertu kannski að koma úr því að vera atvinnumaður í að sinna vinnu með boltanum og slíkt. Þetta er mjög krefjandi. En þvílík frammistaða í þessum leik,“ sagði Ásgeir um Guðmund sem skoraði 10 mörk og átti að minnsta kosti fjórar stoðsendingar í 27-26 sigri á Stjörnunni.

„Með fullt af vopnum í vopnabúrinu“

„Það kom mér á óvart hvað hann var góður sóknarlega,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

„Við höfum eiginlega ekkert séð hann í sókn þann tíma sem hann hefur verið úti, og í landsliðinu fór hann nú ekki mikið yfir miðju. Maður heyrði svo að í Frakklandi og Austurríki hefðu þetta ekki verið neinar flugeldasýningar hjá honum, en svo kom hann bara þarna og var svo heldur betur klár. Það var svo mikill kraftur í honum og „passion“. Hann var langbestur í fyrstu umferð af þessum mönnum sem voru að koma heim núna. Djöfull var hann góður,“ sagði Jóhann.

Geir Guðmundsson, Björgvin Páll Gústavsson og Þráinn Orri Jónsson sneru allir aftur úr atvinnumennsku í sumar og fóru í Hauka, Árni Bragi Eyjólfsson og Ólafur Gústafsson fóru í KA, og Sigtryggur Daði Rúnarsson ákvað að prófa Olís-deildina með ÍBV eftir að hafa spilað í Þýskalandi. Guðmundur Hólmar stóð hins vegar upp úr í 1. umferðinni:

„Hann var úti um allt – skoraði með uppstökki, skoti af gólfinu og með alls konar hætti. Hann er með fullt af vopnum í vopnabúrinu hjá sér og það verður ekkert auðvelt að stoppa hann,“ sagði Ásgeir.

Næsta lið sem freistar þess að stöðva Guðmund er KA, uppeldisfélag kappans, en Selfoss og KA mætast í Hleðsluhöllinni á föstudag kl. 19.30.

Klippa: Seinni bylgjan - Guðmundur Hólmar fór á kostum

Tengdar fréttir

„Þetta er galið rautt spjald“

Seinni bylgjan fór yfir hasarinn í leik KA og Fram en menn ræddu bæði rauða spjaldið sem fór á loft og rauða spjaldið sem fór ekki á loft.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.