Viðskipti innlent

Stutt sumar hjá Icelandair

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð Vísir/vilhelm

Farþegafjöldi hjá Icelandair jókst töluvert í byrjun sumars, þegar létt var á ferðatakmörkunum. Þá dróst hann aftur hratt saman þegar hert var á takmörkunum aftur frá og með 19. ágúst. Ekki var jafn mikill samdráttur í fraktflutningum.

Í tilkynningu frá félagin segir að heildarfjöldi farþega í júlí hafi verið um 73 þúsund og það hafi verið um fjórfalt meiri en í júní. Þá hafi ágúst farið vel af stað og var útlit fyrir áframhaldandi fjölgun farþega.

Eftir 19. ágúst hefur Icelandair þurft að draga töluvert úr flugframboði.

Alls voru farþegar Icelandair í ágúst um 67 þúsund, sem er um 88 prósentum minna en í ágúst í fyrra. Um 53 þúsunda farþeganna komu til Íslands og um 13 þúsund fóru frá landinu. Tengiflug á milli Evrópu og Norður-Ameríku var í algjöru lágmarki.

Heildarframboð hjá Icelandair minnkaði um 89 prósent á milli ára.

Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var tæplega 13 þúsund í ágústmánuði og fækkaði um 58 prósent á milli ára. Framboð í innanlandsflugi minnkaði um 66 prósent á milli ára.

„Þrátt fyrir mikinn samdrátt í farþegaflugi, gekk sumarið að mörgu leyti betur en við höfðum búist við,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í áðurnefndri tilkynningu.

„Farþegafjöldi jókst umtalsvert frá miðjum júní þegar ferðatakmörkunum hafði verið aflétt og fram í ágúst. Jafnframt náðum við að auka tekjur með því að nýta tækifæri í leiguflugi og fraktflutningum á tímabilinu. Nú horfum við hins vegar á mikinn samdrátt í farþegaflugi á ný eftir að takmarkanir á landamærum voru hertar eftir miðjan ágúst. Félagið er þó vel í stakk búið til að takast á við slíkar breytingar og leggjum við höfuðáherslu á að viðhalda sveigjanleika til að geta brugðist hratt við þeirri stöðu sem er uppi á hverjum tíma á mörkuðum Icelandair.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×