Viðskipti innlent

Flug­freyjur í skert starfs­hlut­fall

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ákvörðunin var tekin í síðustu viku.
Ákvörðunin var tekin í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Flugfreyjur og flugþjónar Icelandair verða í 75% starfshlutfalli næstu átta mánuði. Þetta staðfestir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, í samtali við Vísi.

Ákvörðun um þetta var tekin í samráði við stjórnendur flugfélagsins í síðustu viku, til þess að forðast að til hópuppsagna kæmi hjá flugfélaginu vegna stöðunnar sem nú er uppi í ferðaþjónustu hér á landi. Allir sem hingað til lands koma þurfa nú að sæta tvöfaldri skimun fyrir kórónuveirunni og fimm daga sóttkví á milli.

Frá því reglurnar tóku gildi 19. ágúst hefur komufarþegum hingað til lands fækkað umtalsvert og fyrirtæki í ferðaþjónustu sjá mörg hver fram á erfiðan vetur.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir er formaður Flugfreyjufélags Íslands.Vísir/Vilhelm

Einróma afstaða starfsfólks

Í samtali við Vísi segir Guðlaug Líney að málið hafi ekki verið í höndum Flugfreyjufélagsins. Hver starfsmaður hafi sjálfur þurft að samþykkja að skerða starfshlutfall sitt.

Hún segir þó að einróma samstaða hafi náðst meðal starfsfólks um ákvörðunina, sem hafi verið tekin með það fyrir augum að forða hópuppsögn starfsfólks. Guðlaug bendir þá á að í ákvæðum laga um hópuppsagnir sé kveðið á um að leita skuli leiða til að forðast slíkar uppsagnir, sé þess kostur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×