Enski boltinn

De Bruyne tæpur fyrir nágrannaslaginn gegn Man. Utd

Ísak Hallmundarson skrifar
De Bruyne í leiknum síðustu helgi
De Bruyne í leiknum síðustu helgi vísir/getty

Kevin de Bruyne, leikmaður Manchester City, er tæpur fyrir nágrannaslaginn gegn erkifjendunum í Manchester United sem fer fram á sunnudaginn.

De Bruyne var ekki með City í gær þegar liðið sló Sheffield Wednesday út úr FA-bikarnum. Hann er sagður vera að glíma við bakmeiðsli.

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, segist ekki geta sagt til um hversu lengi Belginn verður frá keppni, en hann varð fyrir meiðslum í úrslitaleik enska deildarbikarsins síðustu helgi.

„Við vitum ekki hversu lengi hann verður frá - vonandi ekki of lengi,“ sagði Guardiola.

„Hann féll niður og lenti illa á síðustu mínútu leiksins um helgina.“

Það er vel hægt að færa rök fyrir því að de Bruyne hafi verið einn besti leikmaður City í vetur og er því mikill missir fyrir liðið að geta ekki teflt honum fram gegn nágrönnunum um helgina.

De Bruyne og félagar sitja í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, 22 stigum á eftir Liverpool. Þeir eiga þó góða möguleika á að bæta tveimur titlum við safnið í vor, en þeir eru með 2-1 forystu á Real Madrid eftir fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og mæta svo Newcastle í 8-liða úrslitum FA-bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×