Viðskipti erlent

Boeing kallar MAX-vélarnar nú nýju nafni

Atli Ísleifsson skrifar
Frá tilraunaflugi Boeing 737-Max vélar í Seattle fyrr í sumar.
Frá tilraunaflugi Boeing 737-Max vélar í Seattle fyrr í sumar. Getty

Í yfirlýsingu bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing vegna kaupa pólsks flugfélags á fjórum Max-vélum eru umræddar vélar kallaðar nýju nafni. Vélarnar, sem hafa gengið undir nafninu Boeing 737-Max, eru þar kallaðar Boeing 737-8, áður en tekið er fram að um Max-vélar sé að ræða.

Í frétt Guardian segir að nýja nafnið hafi til þessa einungis verið notað innanhúss hjá Boeing, en nú virðist sem að Boeing ætli sér að nota Boeing 737-8 opinberlega.

Í yfirlýsingunni greinir Boeing frá því að pólska flugfélagið Enter Air SA hafi ákveðið að fjárfesta í fjórum vélum með möguleika á kaupum á tveimur til viðbótar.

Haft er eftir Grzegorz Polaniecki, forstjóra Enter Air, að nauðsynlegt sé að huga að framtíðinni og hafi flugfélagið ákveðið að kaupa fleiri 737-8 vélar. „ Í kjölfar þeirra ströngu prófana sem 737-Max vélarnar hafa gengist undir, er ég sannfærður um að þetta verði besta flugvélin í heimi næstu árin.“

Enn er ekki búið að gefa grænt ljós á að Max-vélarnar fari aftur í loftið, en þær voru allar kyrrsettar eftir tvö mannskæð flugslys á skömmum tíma. Fórust alls 350 manns í slysunum - annars vegar í Indónesíu árið 2018 og hins vegar í Eþíópíu 2019.

Í yfirlýsingu frá Boeing í síðustu viku kom fram að viðskiptavinir hafi afturkallað á fimmta hundrað pantana Max-véla.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×