Leikjavísir

Hætta við EVE Fan­fest vegna kórónu­veirunnar

Sylvía Hall skrifar
Þúsundir hafa heimsótt hátíðina undanfarin ár en hún hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004.
Þúsundir hafa heimsótt hátíðina undanfarin ár en hún hefur verið haldin hér á landi frá árinu 2004. EVE Online

CCP Games hefur ákveðið að blása af hátíðina EVE Fanfest í ár vegna kórónuveirunnar COVID-19. Hátíðin átti að fara fram í Reykjavík dagana 2. til 4. apríl.

Hátíðin hefur verið haldin hér á landi árlega frá árinu 2004 og farið stækkandi með ári hverju. Í yfirlýsingu frá CCP kemur fram að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld en þeim þyki nauðsynlegt að forgangsraða öryggi og heilsu gesta, starfsfólk og almennings á Íslandi.

„Við áttum okkur á því að aðstæður gætu verið aðrar eftir mánuð, en miðað við núverandi þróun, bæði á heimsvísu og í nágrannalöndunum sem og eftir mikla umhugsun er það ljóst að þetta er nauðsynlegt skref að taka,“ segir í yfirlýsingunni.

Í dag greindist fyrsta tilfelli COVID-19 hér á landi. Karlmaður á fimmtugsaldri sem hafði verið með fjölskyldu sinni í skíðaferð veiktist nokkrum dögum eftir að hann kom heim og reyndist sýni úr honum jákvætt.

Þúsundir aðdáenda EVE Online hafa sótt hátíðina undanfarin ár og er því ljóst að þetta er áfall fyrir marga sem höfðu áætlað að gera sér ferð hingað til lands. CCP segist þó hafa viljað taka ákvörðunina eins fljótt og mögulegt var svo fólk gæti gert ráðstafanir í samræmi við það.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Biðja almenning um að halda ró sinni

Skilaboðin til almennings í ljósi þess að fyrsta kórónuveirusmitið er komið upp hér á landi eru skýr. Fólk á að halda ró sinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.