Handbolti

Seinni bylgjan: „Ásgeir Örn hvorki fugl né fiskur í sókninni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Sóknarleikur Hauka var ekki upp á marga fiska í tapinu fyrir Val, 26-32, eins og farið var yfir í Seinni bylgjunni í gær.

Arnar Pétursson sagði ábyrgð leikmanna Hauka mikla og ekki væri hægt að skella allri skuldinni á þjálfarann, Gunnar Magnússon. Ágúst Jóhannsson sagði að of margir leikmenn Hauka hafi ekki skilað sínu í sókninni og nefndi þar m.a. örvhentu skytturnar.

Arnari fannst skrítið að Haukar skyldu ekki búa til fleiri og betri skotfæri fyrir Adam Hauk Baumruk.

„Maður hefði viljað sjá Haukana, í þeim vandræðum sem þeir voru í, koma Adam í einhver færi. Það er ekkert í gangi. Þetta er ekki nægilega markvisst,“ sagði Arnar. „Sóknarleikur Hauka var staður og þeir voru hægir og slakir.“

Arnar skilur ekki hvað leikmönnum Hauka gengur til.

„Gunni er frábær þjálfari og hann reynir að setja upp hluti í vörn og sókn. Mér finnst ábyrgð leikmanna Hauka gríðarlega mikil,“ sagði Arnar.

Ágúst segir að of margir leikmenn Hauka hafi leikið undir pari í sókninni.

„Við getum tekið Atla Báru, Tjörva, Adam og hægri skytturnar, Ásgeir Örn og Ólaf Ægi. Ásgeir hefur verið einn okkar besti leikmaður í gegnum tíðina en er hvorki fugl né fiskur í sókninni. Og Ólafur Ægir sem er að koma úr atvinnumennsku, menn verða að gera meiri kröfur á þessa menn,“ sagði Ágúst.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×