Viðskipti erlent

Hluti af ákærum á hendur stofnanda Theranos felldur niður

Kjartan Kjartansson skrifar
Elizabeth Holmes var aðeins 19 ára þegar hún stofnaði Theranos. Hún sætir nú ákæru fyrir svik og blekkingar.
Elizabeth Holmes var aðeins 19 ára þegar hún stofnaði Theranos. Hún sætir nú ákæru fyrir svik og blekkingar. Vísir/EPA

Alríkisdómari í Bandaríkjunum vísaði frá hluta á ákæru á hendur Elizabeth Holmes, stofnanda Theranos, sem sökuð hefur verið um stórfelldar blekkingar og fjársvik. Sá hluti ákærunnar sem snýr að því að Holmes og meðstjórnandi hennar hafi framið fjársvik með því að blekkja sjúklinga stendur enn.

Holmes og Ramesh „Sunny“ Balwani, fyrrverandi forseti Theranos, voru upphaflega ákærð fyrir samsæri og fjársvik í ellefu liðum í júní árið 2018. Þau hafa neitað sök. Theranos hélt því fram að það hefði þróað tækni sem auðveldaði blóðprufur til muna. Aðeins þyrfti einn blóðdropa úr fingri sjúklinga sem væri svo prófaður sjálfvirkt í tækjabúnaði fyrirtækisins.

Dómarinn í máli Holmes og Balwani vísaði hluta ákæranna frá á þeim forsendum að það hefði verið tryggingafyrirtæki sjúklinganna en ekki sjúklingarnir sjálfir sem hefðu greitt fyrir blóðprufur. Þannig hefðu þau ekki svipt sjúklinga fé eða eignum. Engar sannanir væru heldur fyrir því að þau hefðu skipað læknum að gefa sjúklingum misvísandi upplýsingar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Sjá einnig: Blóði drifnar blekkingar þeirrar sem var sögð næsti Steve Jobs

Holmes og Balwani, sem áttu meðal annars í ástarsambandi um tíma, eru enn ákærð fyrir að hafa hvatt lækna og sjúklinga til að nota blóðprufuþjónustu fyrirtækisins þrátt fyrir að þau vissu að það gæti ekki rannsakað blóð á áreiðanlegan hátt.

Theranos og Holmes vöktu mikla athygli fyrr á þessum áratug og var Holmes sérstaklega hyllt sem yngsta konan til að gerast sjálfskapaður milljarðamæringur. Henni var jafnframt líkt við Steve Jobs, stofnanda Apple, fyrir frumkvöðlastarfsemi sína.

Verulega efasemdir um raunverulega virkni og áreiðanleika tækninnar sem Theranos og Holmes sögðust hafa þróað komu fram með ítarlegri umfjöllun Wall Street Journal árið 2015. Umfjöllunin varð upphafið að endalokum Theranos sem lagði loks upp laupana fyrir tveimur árum.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×