Viðskipti innlent

Pálmi Freyr ráðinn framkvæmdastjóri Kadeco eftir fjögurra mánaða umsóknarferli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pálmi Freyr Randversson.
Pálmi Freyr Randversson.

Pálmi Freyr Randversson tekur til starfa sem framkvæmdastjóri Kadeco þann 1. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kadeco. Hann tekur við starfinu af Mörtu Jónsdóttur sem hætti störfum síðastliðið haust. Í framhaldinu var starfið auglýst og nú fjórum mánuðum síðar er arftaki fundinn. 67 sóttu um starfið en Capacent aðstoðaði Kadeco við ráðningarferlið.

Athygli vakti að starfið var auglýst en Fréttablaðið greindi frá því í mars í fyrra að tímabundin ráðning Mörtu hefði nokkrum sinnum verið framlengd af stjórn félagsins. Það hefði aldrei verið auglýst því til hefði staðið að leggja Kadeco niður. Óvissa ríkti um framtíðarstarfsemi Kadeco en með ráðningu nýs framkvæmdastjóra má ætla að félagið ætli sér að halda fullum dampi.

Stofnað við brotthvarf hersins

Félagið Kadeco var stofnað 24. október 2006 í kjölfar lokunar Bandaríkjahers á herstöð sinni við Keflavíkurflugvöll í þeim tilgangi að taka við þeim eignum sem ekki yrðu nýttar áfram til flugvallarreksturs eða í öryggissamstarfi Norður-Atlantshafsbandalagsins.

Á heimasíðu Kadeco segir að kjarnaverkefni félagsins sé að leiða þróun á landi ríkisins sem umlykur flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar. Kadeco komi að ýmsum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að auka virði svæðisins.

Pálmi Freyr hefur undanfarin ár starfað sem deildarstjóri og verkefnastjóri hjá Isavia við mótun og utanumhald þróunar- og uppbyggingaráætlana Keflavíkurflugvallar. Þá hefur hann jafnframt stýrt hönnunarsamkeppni og forvali vegna þróunaráætlunar, tekið þátt í vinnu við deiliskipulag og aðalskipulag flugvallarins.

Telur vaxtarmöguleika gríðarlega

Pálmi lauk meistaraprófi í borgarhönnun frá Háskólanum í Álaborg árið 2009 og grunnprófi í sama fagi frá sama háskóla 2003. Hann hefur setið fjölda ráðstefna og námskeiða varðandi þróun flugvallaborga.

Pálmi starfaði áður sem verkefna- og teymisstjóri og borgarhönnuður hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Þar stýrði hann fjölmörgum verkefnum tengdum umhverfis-, skipulags- og samgöngumálum.

„Ég er þakklátur fyrir það mikla traust sem stjórn Kadeco sýnir mér og hlakka til að takast á við þá áskorun að þróa það mikla land sem umlykur Keflavíkurflugvöll á grundvelli samkomulags ríkisins, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Isavia. Flugvallarsvæðið hefur gríðarlega vaxtarmöguleika enda um framtíðarsvæði landsins að ræða,“ segir Pálmi Freyr.

Alls bárust 67 umsóknir um starfið og fékk stjórn Kadeco Capacent til þess að annast ráðningaferlið.


Tengdar fréttir

Sturla keypti blokk á Ásbrú

Fjármagnaði kaupin með 50 ára láni frá Íbúðalánasjóði fyrir óhagnaðardrifin leigufélög. Nýtti sér sína eigin uppskrift frá Heimavöllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×