Viðskipti innlent

MDE tekur markaðs­mis­notkunar­mál Lands­bankans fyrir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þrír lykilstarfsmenn Landsbankans fyrir hrun hlutu fangelsisdóma í Hæstarétti árið 2016 fyrir markaðsmisnotkun.
Þrír lykilstarfsmenn Landsbankans fyrir hrun hlutu fangelsisdóma í Hæstarétti árið 2016 fyrir markaðsmisnotkun. vísir/vilhelm

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) mun taka markaðsmisnotkunarmál lykilstarfsmanna Landsbankans fyrir hrun til efnismeðferðar. Dómurinn úrskurðaði um þetta fyrr í mánuðinum en greint er frá málinu á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Mennirnir sem hlut eiga að máli eru þeir Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga bankans, og Sindri Sveinsson, fyrrverandi starfsmaður eigin fjárfestinga bankans. Þeir voru allir dæmdir í fangelsi fyrir markaðsmisnotkun í Hæstarétti í febrúar 2016 en vísuðu málinu til MDE.

Sjá einnig: Hæstiréttur þyngir dóm yfir Landsbankamönnum

Byggðu þremenningarnir á því að brotið hefði verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og að mál þeirra hafi ekki verið dæmt af óvilhöllum dómstól þar sem tilteknir dómarar við Hæstarétt urðu fyrir fjárhagslegu tapi við fall bankanna árið 2008.

Er því meðal annars byggt á því að þeir dómarar við réttinn sem áttu hlutabréf í Landsbankanum og urðu fyrir tjóni við fall bankans hefðu átt að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis.

MDE hefur beint spurningum til íslenska ríkisins vegna málsins. Að því er fram kemur í Fréttablaðinu er óskað eftir svörum um fjárhagslega hagsmuni dómaranna Markúsar Sigurbjörnssonar, Viðars Más Matthíassonar og Eiríks Tómassonar í einhverjum hinna föllnu banka þegar þeir atburðir gerðust sem leiddu til sakfellingar Sigurjóns, Ívars og Sindra áttu sér stað.


Tengdar fréttir

Sigurjón Árnason krefst endurupptöku

Fyrrverandi bankastjóri Landsbankans vill að tvö dómsmál gegn honum verði tekin upp að nýju. Telur dómara vanhæfa vegna hlutabréfaeignar í bönkunum sem féllu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×