Handbolti

Forsetinn hefur fært handboltalandsliðinu mikla lukku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á leik Íslands á EM.
Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á leik Íslands á EM. Mynd/Fésbókarsíða Forseta Íslands

Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur mætt á tvo leiki íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í handbolta og íslenska liðið hefur unnið þá báða.

Liðið vann fyrst sigur á heimsmeisturum Dana í riðlakeppninni og vann síðan spútniklið Portúgala þegar Guðni mætti á leikinn í gær.

Guðmundur og strákarnir voru spurðir út í það á fundinum hvort að það þyrfti ekki bara að tryggja það að forsetinn væri á öllum leikjum liðsins.

„Hann hefur fært okkur mikla lukku,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari og landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson nefndi það að Guðni og strákarnir í liðinu hafi verið að tala um þetta í búningsklefanum eftir leikinn.

Guðmundur var þó fljótur að skipta yfir í alvöru tal um leikinn á móti Portúgal.

„Það sem við gerðum vel í þessum leik er að við vorum vel innstilltir í leikinn og með þau gildi sem hafa oft verið til staðar í íslenska landsliðinu. Stórt hjarta og mikla baráttu og með því fylgdi síðan blessaða leikgleðin,“ sagði Guðmundur.

„Það var skemmtileg stemmning í liðinu og nú þurfum við bara að halda í hana því nú bíður okkar bara nýr andstæðingur,“ sagði Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×