Viðskipti innlent

Bolvísk verslun í hundrað ár

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Stefanía Birgisdóttir rekur Bjarnabúð. Hér er hún ásamt Olgeiri Hávarðarsyni, eiginmanni sínum.
Stefanía Birgisdóttir rekur Bjarnabúð. Hér er hún ásamt Olgeiri Hávarðarsyni, eiginmanni sínum. Vísir/Aðsend

Verzlun Bjarna Eiríkssonar, einnig þekkt sem Bjarnabúð, fagnar í dag aldarafmæli sínu.

Þann 20. janúar á því herrans ári 1920 hófst verslunarrekstur að Hafnargötu 81 í Bolungarvík. Verslunin hefur frá árinu 1927 verið þekkt sem Bjarnabúð.

Rekstur hófst eins og áður segir árið 1920, og var verslunin rekin undir merkjum Hinna sameinuðu íslensku verslana til ársins 1926. Árið 1927 tók Bjarni Eiríksson við rekstrinum, en búðin er einmitt kennd við hann.

Benedikt Bjarnason tók síðan við rekstrinum af föður sínum árið 1958 og sá um hann til ársins 1996. Þá tók núverandi rekstraraðili, Stefanía Birgisdóttir, við stjórnartaumunum.

Í frétt á vef Bolungarvíkur um afmæli verslunarinnar segir að karlmenn í Bolungarvík hafi flestir verið á síld þegar byrjað var á smíði hússins um haustið.

„Það voru því konur og ungt fólk sem grófu fyrir grunni hússins en timburverk þess kom tilsniðið frá Danmörku í ágúst 1919.“

Þar segir jafnframt að allt til ársins 1963 hafi verið afgreitt yfir borðið, en þá hafi versluninni verið breytt í kjörbúð.

Hér að neðan má hlusta á viðtal við Stefaníu Birgisdóttur vegna hundrað ára afmælis Bjarnabúðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×