Handbolti

Örn Ingi byrjaður aftur og hjá félagi sem hann hefur bæði mikla tengingu og taugar til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Örn Ingi Bjarkason í gamla búningi pabba síns.
Örn Ingi Bjarkason í gamla búningi pabba síns. Mynd/Víkingur

Handboltamaðurinn Örn Ingi Bjarkason ætlar að spila með Víkingi næstu tvö árin og hjálpa Fossvogsliðinu að vinna sig aftur upp í Olís deildina. Þetta er mikill styrkur fyrir Víkinga í Grill 66 deildinni.

Örn Ingi Bjarkason hefur leikið með Aftureldingu og FH í efstu deild á Íslandi og sem atvinnumaður með Hammarby í Svíþjóð. Hann hefur ekkert spilað frá 2017-18 tímabilinu með Hammarby.

Örn Ingi er þrítugur og er að taka skóna fram á ný eftir að hafa þurft að gera hlé á handboltaiðkun sinni vegna langvinna meiðsla.

Örn Ingi gerir ekki bara tveggja ára leikmannasamning við Víking heldur mun hann auk þess taka að sér þjálfun í yngri flokkum félagsins.

Örn fetar þar með í fótspor foreldra sinna sem bæði eru uppalin í Fossvoginum og léku með Víkingi á árum áður. Örn er sonur hinnar goðsagnakenndu Víkings-handboltakempu Bjarka Sigurðssonar og á myndinni með fréttinni á síðu Víkinga var hann í gamalli treyju sem faðir hans lék í með Víkingi í kringum 1990.

Það er ljóst að um mikinn liðsstyrk fyrir ungt lið Víkings er að ræða enda reynslumikill leiðtogi sem hefur meðal annars orðið Íslandsmeistari með FH í efstu deild karla.

Örn hafði þetta að segja við undirritun samningsins „Ég er mjög spenntur fyrir því að koma aftur í Fossvoginn enda hef ég bæði mikla tengingu og taugar til félagsins. Það er spennandi að vera partur af þeim markmiðum og upprisu sem á sér stað hjá handknattleiksdeildinni og um leið hjálpa til við að gera Víking að betri handboltafélagi,“ sagði Örn Ingi Bjarkason á fésbókarsíðu Víkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×