Handbolti

Örn Ingi byrjaður aftur og hjá félagi sem hann hefur bæði mikla tengingu og taugar til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Örn Ingi Bjarkason í gamla búningi pabba síns.
Örn Ingi Bjarkason í gamla búningi pabba síns. Mynd/Víkingur

Handboltamaðurinn Örn Ingi Bjarkason ætlar að spila með Víkingi næstu tvö árin og hjálpa Fossvogsliðinu að vinna sig aftur upp í Olís deildina. Þetta er mikill styrkur fyrir Víkinga í Grill 66 deildinni.

Örn Ingi Bjarkason hefur leikið með Aftureldingu og FH í efstu deild á Íslandi og sem atvinnumaður með Hammarby í Svíþjóð. Hann hefur ekkert spilað frá 2017-18 tímabilinu með Hammarby.

Örn Ingi er þrítugur og er að taka skóna fram á ný eftir að hafa þurft að gera hlé á handboltaiðkun sinni vegna langvinna meiðsla.

Örn Ingi gerir ekki bara tveggja ára leikmannasamning við Víking heldur mun hann auk þess taka að sér þjálfun í yngri flokkum félagsins.

Örn fetar þar með í fótspor foreldra sinna sem bæði eru uppalin í Fossvoginum og léku með Víkingi á árum áður. Örn er sonur hinnar goðsagnakenndu Víkings-handboltakempu Bjarka Sigurðssonar og á myndinni með fréttinni á síðu Víkinga var hann í gamalli treyju sem faðir hans lék í með Víkingi í kringum 1990.

Það er ljóst að um mikinn liðsstyrk fyrir ungt lið Víkings er að ræða enda reynslumikill leiðtogi sem hefur meðal annars orðið Íslandsmeistari með FH í efstu deild karla.

Örn hafði þetta að segja við undirritun samningsins „Ég er mjög spenntur fyrir því að koma aftur í Fossvoginn enda hef ég bæði mikla tengingu og taugar til félagsins. Það er spennandi að vera partur af þeim markmiðum og upprisu sem á sér stað hjá handknattleiksdeildinni og um leið hjálpa til við að gera Víking að betri handboltafélagi,“ sagði Örn Ingi Bjarkason á fésbókarsíðu Víkinga.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.