Íslenski boltinn

Heilbrigðisráðuneytið hafnaði undanþágubeiðni KSÍ og leikjum frestað til 13. ágúst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Pepsi Max-deild karla í fótbolta.
Úr leik í Pepsi Max-deild karla í fótbolta. vísir/hag

Heilbrigðisráðuneytið hafnaði beiðni Knattspyrnusambands Íslands um undanþágu frá nándartakmörkunum og sótthreinsun búnaðar í æfingum og keppnum.

Því hefur mótanefnd KSÍ ákveðið að fresta öllum leikjum í meistaraflokkum og 2. og 3. flokki karla og kvenna til og með 13. ágúst.

„Knattspyrnuleikir eru í eðli sínu þannig að ekki er unnt að viðhalda 2 metra nálægðartakmörkun, þrátt fyrir þær reglur sem KSÍ hefur lagt fram um sóttvarnir vegna COVID-19, dags. 6. ágúst 2020,“ segir m.a. í rökstuðningi heilbrigðisráðuneytisins. 

„Í því ljósi og með vísan til þess að íþróttaviðburðir falla ekki undir undanþáguákvæði 1. mgr. 8. gr. auglýsingarinnar er því ekki unnt að verða við beiðni KSÍ og er henni því hafnað.“

Takmarkanirnar ná aðeins til iðkenda sem eru fæddir 2004 og fyrr. Því verður leikjum í 4. og 5. flokki karla og kvenna ekki frestað. 

Í frétt á heimasíðu KSÍ kemur fram að foreldrum og aðrir aðstandendum iðkenda í þessum flokkum sé ráðlagt að mæta ekki á leiki og æfingar og gæta ítrustu varkárni í samskiptum.

Í fréttinni kemur einnig fram að KSÍ muni áfram vinna með heilbrigðisyfirvöldum við að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum. Leikmenn eru hvattir til að gæta sín í öllum samskiptum og forðast mannmarga staði, s.s. verslanir, veitingastaði, kvikmyndahús og skemmtistaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×