Samkeppniseftirlitið óskar nú eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila vegna kaupa Storytel á 70 prósent eignarhlut í Forlaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.
Tilkynnt var um kaup sænska hljóðbókarisans Storytel á meirihluta í Forlaginu 1. júlí síðastliðnum. Samkeppniseftirlitinu barst formleg tilkynning um kaupin 20. júlí.
Eftirlitið hefur það hlutverk samkvæmt samkeppnislögum að rannsaka samruna og ber í því sambandi að leggja mat á það hvort „samruni fyrirtækja raski samkeppni með umtalsverðum hætti og skaði þar með hagsmuni almennings eða atvinnulífs,“ segir í tilkynningu. Við mat á áhrifum samruna aflar Samkeppniseftirlitið gagna frá aðilum sem eftir atvikum geta verið viðskiptavinir eða keppinautar samrunaaðila, eða tengst mörkuðum málsins á einhvern hátt.
Eftirlitið veitir hér með þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna samrunans færi á að koma fram sjónarmiðum vegna hans. Umsagnir berist eigi síðar en 13. ágúst á netfangið samkeppni@samkeppni.is.
Starfsemi Storytel á Íslandi fer einkum í gegnum dótturfélag Storytel, Storytel Iceland ehf., og felst að stærstum hluta í sölu á áskriftum að streymisveitu Storytel og dreifingu íslenskra hljóðbóka og rafbóka á grundvelli dreifingarsamninga við bókaútgefendur.
Forlagið gefur út bækur undir merkjum JPV útgáfu, Máls og menningar, Vöku-Helgafells, Ókeibóka og Iðunnar og selur til endurseljenda. Forlagið rekur einnig eina bókabúð auk vefverslunar.