Golf

Eru fyrst og fremst fegin og glöð að fá að halda mótið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Vísir/Kylfingur

Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar, segist fyrst og fremst vera feginn og glaður að fá að halda Íslandsmótið í golfi. Ágúst var í viðtali hjá íþróttadeild RÚV þar sem hann ræddi komandi Íslandsmót en ekki var víst að það gæti farið fram eftir hertar aðgerðir Almannavarna gegn kórónufaraldrinum.

„Það er ýmislegt sem við þurfum að gera. Við erum fyrst og fremst fegin og glöð að fá að halda mótið. Þegar þetta kom í ljós höfðum við strax samband við sóttvarnalækni og heilbrigðisyfirvöld og þau gáfu okkur grænt ljós,“ sagði Ágúst í viðtalinu við RÚV.

„Við gerum þetta þannig að það fer sjálfboðaliði með hverju holli og þetta er eini aðilinn sem snertir flaggstöngina. Hann eða hún rakar sandgryfjuna á eftir kylfingum og réttir kylfingum boltann upp úr holunni. Hver og einn sjálfboðaliði fer af stað vopnaður hrífu, átján pörum af einnota hönskum og sótthreinsi klút til þess að þrífa stöng, og brúsa af sótthreinsi vökva,“ segir Ágúst einnig og ljóst að engin áhætta verður tekin.

„Þannig að á enginn, og það verður engin, snerting á sameiginlega fleti hjá leikmönnum. Það er auðvitað nóg pláss svo það er hægt að halda tveggja metra fjarlægð. Vonum að þetta gangi vel og allir framfylgja því sem á að gera og þannig verður þetta geggjað.“

„Það var bara eitt í stöðunni. Við vorum búin að manna allt með okkar frábæra fólki í Golfklúbbi Mosfellsbæjar hvað varðar sjálfboðaliða. Við áttum ekki von á að þurfa svona marga sjálfboðaliða og þá var bara sent út á alla kylfinga landsins, svo gott sem alla. Við fengum frábær viðbrögð,“

Engir áhorfendur verða á mótinu en upprunalega var reiknað var með töluvert af fólki.

„Við vorum búin að plana ýmislegt. Við ætluðum að vera með stúku og ætluðum að kynna kylfur. Á 10. brautinni geta okkar bestu kylfingar slegið alla leið inn á flöt. Ef einhver af hollinu hitti inn á flöt í fyrsta höggi að þá hefðu allir í stúkunni fengið frían drykk að eigin vali. Því miður gengur það ekki upp,“ sagði Ágúst að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.