Viðskipti innlent

Efnalaugar geri hreint fyrir sínum dyrum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Neytendastofa gerir athugasemdir við vefsíður allra þeirra efnalauga sem stofnunin tók til skoðunar.
Neytendastofa gerir athugasemdir við vefsíður allra þeirra efnalauga sem stofnunin tók til skoðunar. Getty/Richard Newstead

Allar þær nítján efnalaugar sem Neytendastofa tók til skoðunar þurfa að gera bragarbót á vefsíðum sínum. Aðeins tvær þeirra birtu verðskrá og engin sýndi kennitölu eða virðisaukaskattsnúmer fyrirtækisins.

Neytendastofa segist hafa gert úttekt á vefsíðum efnalauganna í nýliðnum júlímánuði, enda sé mikilvægt fyrir viðskiptavini að vita við hvern þeir versla og hvað þeir rukka. 

Af þeim sökum þurfi að koma fram á vefsíðum fyrirtækja, efnalauganna í þessu tilfelli, hinar ýmsu upplýsingar eins og „nafn, heimilisfang, kennitala, virðisaukaskattsnúmer, hlutafélagsskrá og ef á við leyfi.“ Þar að auki þurfi ávallt að birta verðskrá þar sem þjónusta er kynnt eða seld.

Í stuttu máli reyndust umræddar upplýsingar, sem Neytendastofa telur nauðsynlegar, af skornum skammti á vefsíðum efnalauganna nítján.

„Athugasemdir voru gerðar við allar efnalaugarnar þar sem engin vefsíða var með kennitölu né virðisaukaskattsnúmer skráð, þá voru aðeins tvær efnalaugar með birta verðskrá,“ segir Neytendastofa.

Stofnunin segist í framhaldinu hafa upplýst efnalaugarnar um „þær skyldur sem á þeim hvíla og fór fram á úrbætur þar sem þörf var á.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×