Viðskipti innlent

Icelandair vill semja við alla á næstu tíu dögum

Stefán Ó. Jónsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Flugvél Icelandair við Leifsstöð
Flugvél Icelandair við Leifsstöð Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Icelandair stefnir að því að klára samninga við fimmtán lánardrottna, stjórnvöld og Boeing flugvélaframleiðandann nú fyrir lok mánaðar áður en farið verður í hlutafjárútboð.

Þetta segir Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs félagsins, í samtali við Fréttablaðið í dag. Hún segir horft til þess að semja við lánardrottna um lækkun afborgana en að auki sé rætt við stjórnvöld um skilmála lánalínu til þrautavara, ef fyrirhugað hlutafjárútboð dugir ekki til að bjarga félaginu.

Eva segir að lánardrottnarnir sem Icelandair hafi átt í viðræðum við séu fimmtán talsins en um er að ræða leigusala, færsluhirða, lánveitendur og mótaðila vegna olíuvarna, að því er segir í blaðinu.

Icelandair hefur náð samkomulagi við flugstéttir og flugvirkja um kjaraskerðingu, sem félagið sagðist vilja landa fyrir hlutafjárútboðið. Nýr kjarasamningur Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands var óvænt undirritaður aðfaranótt sunnudags, kynntur flugfreyjum í gær og félagsmenn greiða atkvæði um hann síðar í vikunni.

Hlutabréfaverð í Icelandair hækkaði um næstum 9 prósent í Kauphöllinni í gær eftir að samningurinn við flugfreyjur lá fyrir. Virði félagsins er þó vart svipur hjá sjón, en hlutabréfaverð Icelandair í dag er einn áttundi af því sem það var fyrir tveimur árum síðan og einn tuttugasti af genginu í apríl 2016.


Tengdar fréttir

Segir verkalýðsforingja reyna að knésetja Icelandair

Þorsteinn Víglundsson segir framgöngu verkalýðshreyfingarinnar til skammar með því að reyna að hafa áhrif á ákvarðanatöku um fjárfestingar í Icelandair. Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, segir að fulltrúum í stjórnum lífeyrissjóða sé óheimilt að láta undan slíkum þrýstingi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×