Viðskipti innlent

Undirliggjandi horfur krónunnar góðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans. Baldur

Krónan hefur fallið um um 17 prósent gagnvart evru frá áramótum. Þannig er evran um tuttugu og fimm krónum dýrari nú en í byrjun janúar. Innfluttar vörur hafa hækkað í verði á meðan hagur útflytjenda vænkast.

Íslenska krónan hefur farið frekar illa út úr kórónuveirufaraldrinum. 2. janúar kostaði evran 136 krónur. Í dag kostar evran 160 krónur og verðið því hækkað um 24 krónur frá áramótunum. 28. febrúar greindist fyrsta smitið hér á landi. Frá þeim tíma og fram í maí hækkaði verð evrunnar gagnvart krónunni upp í 160 krónur. Krónan náði þó að styrkjast aftur en sú styrkingin er gengin til baka í dag.

„Það gerir allan innflutning dýrari. Verð á innfluttum vörum hækkar. En að sama skapi hjálpar þetta útflutningsgeirunum, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. En að einhverju leyti voru áhrifin nú þegar komin fram þar sem krónan var nú þegar búin að veikjast í maí. Þá var hún á svipuðum slóðum og hún er í dag,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans.

Það þýði að ekki sé mikil ástæða til að óttast að gengi krónunnar eigi eftir að hafa mikil áhrif á verðbólgu á næstu mánuðum.

„Af öllu því sem ég hef áhyggjur af í efnahagsmálum hef ég minnstar áhyggjur af verðbólgu. Ég hef meiri áhyggjur af þróun kórónuveirufaraldursins, hvernig hún verður, og áhrifin á ferðaþjónustuna til langframa,“ segir Daníel.

Hann segir undirliggjandi horfur fyrir krónuna ágætar.

„Við erum að gera ráð fyrir að viðskiptajöfnuðurinn við útlönd í heild verði lítilsháttar jákvæður fyrir árið í heild. Við eigum orðið meira af erlendum eignum heldur en erlendum skuldum, þjóðarbúið í heild. Við eigum risastóran gjaldeyrisforða. Það er því engin ástæða fyrir að krónan eigi eftir að veikjast mikið frá núverandi gildum heldur styrkjast miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í dag,“ segir Daníel.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×