Viðskipti innlent

Icelandair endurræður 114 flugmenn af 421

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flugvél Icelandair við Leifsstöð
Flugvél Icelandair við Leifsstöð VísirVilhelm Gunnarsson

Af þeim 421 flugmanni sem Icelandair sagði upp í lok apríl munu 139 starfa hjá fyrirtækinu um næstu mánaðamót. Flugfélagið hefur dregið til baka 114 uppsagnir sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna segir vera vonbrigði.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segir Vísi að útreikningar um flugmannaþörf séu byggðir á þeirri áætlun sem líklegt er talið að verði flogin í ágúst.

„Í ljósi fyrirliggjandi óvissu er einungis hægt að gera áætlanir nokkrar vikur fram í tímann og jafnvel þá eru þær breytingum háðar. Þannig geta markaðir opnast og lokast með skömmum fyrirvara en með þessari mönnun tryggjum við áframhaldandi sveigjanleika og getum gripið þau tækifæri sem kunna að skapast,“ segir Jens.

Það sé vitaskuld erfitt að horfa á eftir starfsfólki við þessar aðstæður en Icelandair voni að umsvif þess aukist þannig að hægt verði að skapa ný störf fyrir flugmenn og annað starfsfólk.

„Samstarf félagsins og flugmanna þess hefur verið mjög gott í gegnum þetta óvissuástand og hafa flugmenn sýnt sveigjanleika og útsjónarsemi sem er ómetanlegt á tímum sem þessum,“ segir Jens.

Forsvarsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segjast vonsviknir með ákvörðun Icelandair og lýsa sig ósammála forsendum flugfélagsins. Í bréfi til félagsmanna, sem Fréttablaðið skrifar upp úr, segir FÍA að ljóst sé að með umfangsmeiri flugáætlun, einkum vestur um haf, verði þörf fyrir fleiri flugmenn.

„Þá taka þær forsendur sem félagið leggur nú til grundvallar þeirri ákvörðun sinni að halda aðeins 139 flugmönnum í starfi ekki til verkefna í leiguflugi, sem þó gætu komið upp með skömmum fyrirvara,“ segir í bréfi FÍA.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.