Viðskipti erlent

Bandaríkin íhuga að banna TikTok

Kristín Ólafsdóttir skrifar
TikTok hefur á skömmum tíma orðið eitt vinsælasta smáforrit heims.
TikTok hefur á skömmum tíma orðið eitt vinsælasta smáforrit heims. Vísir/getty

Stjórnvöld í Bandaríkjunum íhuga nú að banna smáforritið TikTok í landinu, auk annarra kínverskra smáforrita. Þetta staðfesti utanríkisráðherrann Mike Pompeo í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fox News í gærkvöldi.

„Varðandi kínversk smáforrit í símum fólks, ég get fullvissað þig um það að Bandaríkin munu einnig fara rétt með þetta, Laura,“ sagði Pompeo og ávarpaði þar stjórnanda þáttarins, Lauru Ingraham. „Ég vil ekki taka fram fyrir hendurnar á forsetanum [Donald Trump] en þetta er eitthvað sem við erum að skoða.“

Mike Pompeo er utanríkisráðherra Bandaríkjanna.vísir/getty

Þá kvað hann stjórnvöld taka málið „mjög alvarlega“ og varaði Bandaríkjamenn við því að hala appinu niður í síma sína. Það ætti fólk aðeins að gera „ef þið viljið að persónuuupplýsingar um ykkur rati í hendur kínverska kommúnistaflokksins.“

TikTok hefur orðið einn vinsælasti samfélagsmiðill heims á skömmum tíma og státar af tæpum milljarði notenda, þar af er stór hluti Bandaríkjamenn. Móðurfyrirtæki TikTok er hið kínverska ByteDance og þykir ekki til fyrirmyndar í persónuverndar- og netöryggismálum. ByteDance hefur hins vegar neitað því staðfastlega að fyrirtækið deili persónuupplýsingum notenda með kínverskum stjórnvöldum.

Þá mun TikTok fljótlega þurfa frá að hverfa í öðrum heimshornum. Forritið hættir innan skamms að vera aðgengilegt í kínverska sjálfsstjórnarhéraðinu Hong Kong, sökum hertra öryggislaga sem þar var komið á að tilstuðlan kínverskra stjórnvalda. Indversk stjórnvöld tilkynntu jafnframt í síðustu viku að banna ætti TikTok og önnur kínversk smáforrit þar sem þau væru „ógn við fullveldi og heilindi“ Indlands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.