Golf

Andri vann eftir óbærilega spennu á Hlíðavelli

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Þór Björnsson vann sig upp listann í dag og endaði í efsta sæti.
Andri Þór Björnsson vann sig upp listann í dag og endaði í efsta sæti. MYND/SETH@GOLF.IS

Áhugakylfingarnir sem voru efstir fyrir lokahringinn á ÍSAM-golfmótinu á Hlíðavelli í dag stóðust ekki pressuna á lokaholunni og sáu á eftir sigrinum til atvinnukylfingsins Andra Þórs Björnssonar.

Andri lék á -2 höggum í dag og endaði mótið á samtals fjórum höggum undir pari. Dagbjartur Sigurbrandsson, sem líkt og Andri er úr GR, var með forystuna eftir fyrstu tvo hringi mótsins en lék á þremur höggum yfir pari í dag og endaði einu höggi á eftir Andra.

Dagbjartur fékk skolla á 18. braut nú undir kvöld, þegar útlit var fyrir bráðabana á mótinu. Heimamaðurinn Björn Óskar Guðjónsson var einnig grátlega nærri sigri en hann fékk skramba á lokaholunni og endaði tveimur höggum á eftir Andra. Þeir Björn og Kristófer Karl Karlsson enduðu jafnir í 3.-4. sæti.

Haraldur Franklín Magnús kom sér upp í 5.-6. sæti, jafn Tómasi Eiríkssyni Hjaltested, með því að leika á -3 höggum í dag þrátt fyrir að fá skolla á lokaholunni. Þeir léku hvor um sig samtals á -1 höggi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.