Golf

Sautján ára forystusauður og Guðrún tveimur höggum á undan Ólafíu

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er með forystuna í Mosfellsbæ.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er með forystuna í Mosfellsbæ. MYND/SETH@GOLF.IS

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er með tveggja högga forskot á Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur eftir tvo hringi af þremur á ÍSAM-mótinu í golfi í Mosfellsbæ. Áhugakylfingurinn Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR er efstur í karlaflokki.

Guðrún hafði fjögurra högga forskot eftir fyrsta hring sem hún lék á nýju vallarmeti Hlíðavallar eða 68 höggum. Hún lék seinni hringinn í dag hins vegar á 74 höggum og er því samtals á -2 höggum. Ólafía lék á pari nú síðdegis líkt og fyrri hringinn í dag, og stefnir því í harða keppni á þriðja og síðasta hringnum á morgun. Valdís Þóra Jónsdóttir er tíu höggum á eftir Guðrúnu eftir að hafa leikið á 79 höggum seinni hringinn í dag.

Dagbjartur Sigurbrandsson er aðeins 17 ára en er efstur á ÍSAM-mótinu eftir daginn.MYND/SETH@GOLF.IS

Dagbjartur, sem er aðeins 17 ára, lék afar vel í dag eða á 70 höggum fyrri hringinn og svo 68 höggum síðdegis. Hann er því samtals á -6 höggum, með tveggja högga forskot á annan áhugakylfing, heimamanninn Björn Óskar Guðjónsson. Mótið gefur stig inn á heimslista áhugamanna.

Efstir atvinnukylfinga eru þeir Axel Bóasson, Andri Þór Björnsson og Ólafur Björn Loftsson sem leikið hafa samtals á -2 höggum, líkt og Kristófer Orri Þórðarson. Íslandsmeistarinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson er samtals á pari eftir 69 högga seinni hring í dag, en Haraldur Franklín Magnús er á +2 höggum í 16.-18. sæti.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.