Atvinnulíf

Þrjú einkenni góðra krísustjórnenda

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Bjarni Snæbjörn Jónsson lýsir einkennum góðra krísustjórnenda.
Bjarni Snæbjörn Jónsson lýsir einkennum góðra krísustjórnenda. Vísir/Vilhelm

„Það er ekki öllum gefið að halda rónni þegar svo háttar sem nú, en þeir sem eru líklegastir til þess eru þeir sem sýna auðmýkt, viðurkenna vanmátt sinn, fá aðra til liðs við sig og gefa þeim bæði umboð og vald til þess að taka ákvarðanir og framkvæma þær,“ segir Bjarni Snæbjörn Jónsson og halda eflaust margir að þar sé hann að lýsa þríeykinu svo kallaða: Ölmu, Víði og Þórólf. 

Hið rétta er að Bjarni er með þessum upphafsorðum að lýsa einkenni góðra krísustjórnenda, en það að hafa stjórn á sjálfum sér er eitt það mikilvægasta. 

„Það hefst að vísu ekki nema með skýrum og gegnsæjum árangursmarkmiðum, en að temja sér þannig nálgun er einmitt einkenni þeirra stjórnenda sem farnast vel í mismunandi aðstæðum,“ segir Bjarni.

Bjarni Snæbjörn Jónsson lauk doktorsnámi í stjórnun árið 2014 þar sem meginviðfangsefnið hans var þróun og umbreyting fyrirtækja og samfélaga. Bjarni hefur yfir 25 ára reynslu í ráðgjöf með áherslu á stefnumótun og stjórnun. Síðustu árin hefur hann sérhæft sig í þróun tækja og tóla til að bæta innleiðingu á stefnu fyrirtækja og stofnana og er auk þess einn af stofnendum hugbúnaðar-fyrirtækisins DecideAct. Á árum áður var Bjarni framkvæmdastjóri hjá Skeljungi um árabil.

Við báðum Bjarna um að lýsa því hvað einkennir góða krísustjórnendur.

1. Er yfirvegaður

Að hafa stjórn á sjálfum sér og falla ekki í þá freistni að vera alltaf að koma til skjalanna. 

Góður krísustjórnandi eru yfirvegaður, einbeitir sér að því að halda yfirsýn hvað sem á dynur og að taka vel ígrundaðar ákvarðanir í ólgusjó.

2. Horfir á heildarmyndina

Góður stjórnandi stendur á bakkanum og horfir yfir strauminn, sér fyrir það sem framundan er, skilur heildarmyndina og getur tekið tímanlegar og yfirvegaðar ákvarðanir.

Hann er ekki einn af þeim sem stekkur út í strauminn jafnóðum og hann sér eitthvað sem þarf að takast á við. Geri stjórnandinn það, er hann glataður. Missir yfirsýn og er ekki til staðar þar sem hann á að vera.

3. Byggir upp liðsheildina

Góður krísustjórnandi skilur jafnframt mikilvægi liðsheildarinnar, að byggja upp hóp jafningja í kringum sig þar sem hver og einn finnur til ábyrgðar gagnvart hlutverki sínu. Hann gerir það ekki bara þegar áföll steðja að, hann vinnur stöðugt í því að byggja upp, styrkja og þjálfa liðsheildina, hvort sem er í þeim tilgangi að takast andlega á við áföll í rekstrinum eða ná metnaðarfullum markmiðum.

Hann gætir þess að engin óleyst mál séu innan liðsins og skapar þannig andrúmsloft, að hver og einn viti hvað til síns friðar heyrir. Það er einmitt þetta sem á reynir þegar upp koma krísur.

Sé þetta ekki til staðar, stendur stjórnandinn berskjaldaður og skiptir þá engu máli hvort viðkomandi teljist góður stjórnandi eða ekki.


Tengdar fréttir

Krísustjórnun á tímum kórónuveiru og algengustu mistökin

Bjarni Snæbjörn Jónsson segir mikilvægt að stjórnir stígi inn að krafti og styðji við stjórnendateymin sín. Mistök verða gerð enda enginn sem getur fullyrt að ráða við stöðuna sem nú er uppi. Fyrirtækjum blæðir og sum eru í „hjartastoppi.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×