Innlent

Svínakjöt hækkaði í verði um 42 prósent

Verð á kjöti hefur hækkað töluvert á síðasta ári, mest á svínakjöti. fréttablaðið/pjetur
Verð á kjöti hefur hækkað töluvert á síðasta ári, mest á svínakjöti. fréttablaðið/pjetur
„Það er staðreynd að viðvarandi kjötskortur er að hafa áhrif á verðlagið,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. „Þær aðgerðir stjórnvalda sem koma í veg fyrir innflutning birtast nú í því.“

Verð á kjöti frá framleiðendum til smásala eða sjálfstæðra kjötvinnslna hefur hækkað mikið síðan í júní í fyrra. Þá hefur svínakjöt hækkað mest, um 42 prósent. Finnur segir að ljóst sé að ekki væri verið að hækka verð á kjöti jafn mikið og raun ber vitni ef framboðið væri nóg til að anna eftirspurn á markaðnum.

Tæplega þrjátíu prósenta samdráttur varð í sölu á lambakjöti í júlí á milli ára og fimmtán prósent í ágúst. Finnur bendir þar á að þetta séu tveir afar söluháir mánuðir, en þó hafi sala á svínakjöti dregist saman um tíu prósent.

„Kjöt er hluti af útgjöldum heimilanna. Það segir sig sjálft að þrjátíu prósenta hækkun á kjötverði í fimm prósenta verðbólgu hefur áhrif inn í vísitöluna,“ segir Finnur.

Leifur Þórsson, framkvæmdastjóri Ferskra kjötvara, tekur í sama streng. Hann telur víst að skýringin á skorti á lambakjöti í landinu sé aukinn útflutningur.

„27 prósenta samdráttur í sölu á lambakjöti í júlí getur ekki skýrst af neinu öðru,“ segir Leifur. Samkvæmt nýjustu tölum frá Bændasamtökunum jókst framleiðsla á lambakjöti um 104 prósent á síðasta ársfjórðungi. Framleiðsla á svínakjöti dróst hins vegar saman um tæp sjö prósent.

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) kvörtuðu til Samkeppniseftirlitsins 6. júlí síðastliðinn og óskuðu eftir rannsókn á því sem þau telja óeðlilega verðhækkun á svínakjöti, kjúklingakjöti og eggjum. Í beiðni SVÞ til Samkeppniseftirlitsins kemur fram að mikla fákeppni á markaði megi meðal annars skýra með vísan til eignarhalds á framleiðslufyrirtækjum, en þar séu krosseignatengsl mikil.

„Við höfum miklar áhyggjur af því hversu stór aðili er einn að þessum framleiðslumarkaði,“ segir Andrés Magnússon, formaður SVÞ, og vísar þar í Stjörnugrís og Stjörnuegg, sem eiga hvort um sig um sjötíu prósenta markaðshlutdeild. „Við teljum að fyrirtækin séu að nýta sér það með hærri verðlagningu að stjórnvöld leggi stein í götu innflutnings.“

Ekki náðist í Hörð Harðarson, formann Samtaka svínabænda, í gær.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×