Handbolti

Dramatískur sigur Löwen á Lemgo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert á línunni í kvöld.
Róbert á línunni í kvöld. Nordic Photos / Bongarts
Krzysztof Lijewski tryggði í kvöld Rhein-Neckar Löwen nauman sigur á Lemgo í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta með því að skora sigurmarkið þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka. Lokatölur voru 26-25 og er Löwen með átta stig eftir sex leiki í þriðja sæti deildarinnar.

Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Löwen sem hefur lent í ýmsum vandræðum í upphafi leiktíðar en liðið náði þó að innbyrða góðan sigur á útivelli í kvöld, þó svo að það hafi staðið tæpt.

Löwen var með undirtökin í leiknum lengst af en fimm mínútum fyrir leikslok náði Lemgo að jafna í stöðunni 22-22. Var jafnt á öllum tölum eftir það en Lijewski skoraði sem fyrr segir markið mikilvæga sem tryggði Löwen stigin tvö.

Róbert Gunnarsson komst ekki á blað að þessu sinni hjá Löwen. Zarko Sesum var markahæstur hjá liðinu með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×