Erlent

Vilja setja páfa aldurstakmörk

Kosning pólska kardínálans Karol Józef Wojtyla sem páfa markaði tímamót í sögu kaþólsku kirkjunnar. Hvort tveggja vegna þess að hann varð fyrsti maðurinn fæddur utan Ítalíu til að gegna embætti páfa í 455 ár og eins vegna þess að hann var fyrsti Austur-Evrópubúinn til að setjast á páfastól. Nú er útlit fyrir að endalok hans marki einnig tímamót því þeim fer fjölgandi innan kaþólsku kirkjunnar sem ræða um að setja aldurstakmörk svo páfi sitji ekki í embætti fram yfir ákveðinn aldur.

Veikindin veikja kirkjuna

Undanfarin ár hafa helstu fréttir af páfa einkum tengst veikindum hans, hvort sem er innlögn hans á sjúkrahús fyrr í vikunni eða það hversu hrumur og veiklulegur hann var í Lourdes í ágúst í fyrra. Nú er svo komið að menn telja veikindi hans hafa veikt kirkjuna.

Þó daglegur rekstur kirkjunnar haldi áfram þrátt fyrir veikindi páfa geta þau haft mikil áhrif. Hann einn getur skipað biskupa og telst einn manna óskeikull í túlkun trúarinnar. Því er það svo að verði páfi ófær um að sinna skyldum sínum verður að bíða með allar meiriháttar ákvarðanir þar til hann nær heilsu eða fellur frá og nýr páfi er kjörinn.

Vilja setja aldurstakmark

Undanfarið hafa kardínálar rætt það sín á milli að setja aldurstakmark þannig að páfar geti ekki gegn embætti eftir ákveðinn aldur það því er breska blaðið The Times greindi frá á dögunum. Hugmyndin er að páfi láti af embætti, líklega við 80 ára aldur. Ástæðan er veikindi páfa enda hefur verið sagt að hann hafi lítið komið að stjórn Vatíkansins síðustu tvö árin. Þess í stað hafi helstu samstarfsmenn hans, Joseph Ratzinger, afar íhaldssamur kardínáli sem hefur ráðið mestu um íhaldssama stefnu páfans, Angelo Sodano, næstráðandi hans, og Joaquín Navarro-Valls, talsmaður páfa, ráðið mestu að sögn blaðsins.

Kardínálarnir geta ekki tekið ákvörðun um að aldurstakmark verði sett, það er í valdahring páfa. Þeir geta hins vegar valið til páfa mann sem er fylgjandi aldurstakmörkum. Núverandi páfi lýsti því hins vegar yfir þegar 20 ár voru liðin frá því hann tók við embætti að hann ætlaði að sitja til æviloka og er sagður líta svo á að guð einn geti ákveðið hvenær verki hans sé lokið og þá kallað hann til sín.

Verði sett aldurstakmörk er það byltingarkennd breyting á kaþólsku kirkjunni en aðeins tveir páfar hafa sjálfviljugir látið af embætti.

Óvænti páfinn

Páfakjör fór síðast fram fyrir rúmum 26 árum. Það tók kardínálana þrjá daga að komast að niðurstöðu og þegar hún lá fyrir voru margir litlu nær. Maðurinn sem 18. október 1978 var valinn til þess að taka við af einum skammlífasta páfanum, og átti eftir að verða einn sá langlífasti, var lítt þekktur pólskur kardínáli sem fáir höfðu veðjað á.

Pólverjinn sem síðar átti eftir að verða páfi hóf guðfræðinám sitt við óvenjulegar kringumstæður. Þjóðverjar bönnuðu háskólann sem hann nam við skömmu eftir að þeir hernámu Pólland og því þurfti hann að stunda námið á laun hjá erkibiskupnum í Kraká. Eftir stríð fór hann til náms í Róm og gerði víðreist um Vesturlönd áður en hann hóf prestsstörf í heimalandi sínu.

Karol Józef Wojtyla byrjaði að skapa sér nafn meðal forystumanna kaþólsku kirkjunnar á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar meðan annað Vatíkansþingið stóð yfir. Hann var þó aldrei sérlega áberandi og því kom það mjög á óvart þegar hann var kosinn páfi eftir að Jóhannes Páll I andaðist eftir aðeins mánuð í embætti.

Jóhannes Páll II þótti fljótt alþýðlegri en forverar hans og það auk mikilla ferðalaga hans skilaði sér í miklum vinsældum hans.

Vinsælasti Pólverjinn

Vinsældir páfa eru sennilega hvergi meiri en í heimalandi hans, Póllandi. Þar er hann í dýrlingatölu hjá einhverri trúuðustu þjóðar Evrópu. Ástæðuna má ekki síst rekja til heimsóknar hans til Póllands árið 1983. "Verið óhrædd," sagði hann við Pólverja og er heimsókn hans og boðskapur talin hafa gert mikið í að styrkja Samstöðu, hreyfinguna sem undir forystu Lech Walesa hélt uppi andófi gegn stjórnvöldum. Áður hafði hann tekið á móti Walesa í Vatíkaninu og lýst stuðningi við baráttu samtakanna.

Jóhannes Páll II hefur verið duglegur við að heimsækja heimaland sitt og hefur sjö sinnum farið þangað eftir að hann varð páfi.

Gagnrýndur fyrir íhaldssemi

Páfinn er ekki aðeins vinsæll, hann hefur líka verið harðlega gagnrýndur. Íhaldssöm viðhorf hans eru eitur í beinum margra. Hann er harður í afstöðu sinni gegn skilnuðum, hjónaböndum samkynhneigðra, og fóstureyðingum. Hann hefur þó líklega verið gagnrýndur hvað harðast fyrir einarða afstöðu sína gegn notkun smokksins, það að hann hefur í engu breytt afstöðu sinni þrátt fyrir ógnvænlega útbreiðslu alnæmis hefur aðeins orðið til að herða andstöðu gegn honum.

Íhaldssemi páfa hefur orðið kaþólsku kirkjunni til skaða að mati margra, hvort tveggja innan kirkjunnar og utan. Ólíklegt er hins vegar að afstaða hans breytist nokkuð og þar sem hann hefur skipað nær alla kardínála, en þeir kjósa arftaka hans, er líklegt að næsti páfi verði sömu skoðunar.


Graf/Fréttablaðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×