Viðskipti innlent

Talið að Milestone vilji 10% í viðbót af Carnegie-hlutum

Verðbréfafyrirtækið Enskilda í Svíþjóð ryksugar nú markaðinn þar af hlutabréfum í Carnegie-bankanum. Ekki er víst hver stendur að baki þessum kaupum en í sænskum fjölmiðlum er leitt getum að því að það sé Invik sem er í eigu Milestone á Íslandi. Eins og áður hefur verið greint frá í Vísi hefur Milestone þegar eignast 9,7% hlut í Carnegie og er talið að félagið vilji auka hlut sinn í 20%.

Það er sænka blaðið Affärsvärlden sem fjallar um áhuga Milestone og segir að í gærdag hafi verðbréfamiðlarar Enskilda hringt í eigendur hlutabréfa í Carnegie og reynt að ná kaupum á 10% af hlutafé bankans. Hinsvegar hafi viðbrögð hluthafa verið dræm þótt Enskilda hafi boðist til að kaupa hlutinn á 140 skr. en gengi bréfanna stóð í 135 skr. við lokun markaða í gær. Í dag er gengið aftur á móti komið í 143,75 skr.

Í Hálf fimm fréttum greiningar Kaupþings þann 3 október s.l. segir m.a. að með kaupum Milestone á fyrrgreindum 9,7%, í gegnum fjármálafyrirtækið sitt Invik, eru íslenskir fjárfestar orðnir stærstu hluthafarnir í Carnegie á nýjan leik en Landsbankinn átti þar tæpan fimmtungshlut um hríð sem hann seldi með tíu milljarða króna gengishagnaði á vordögum 2006.

"Invik er ekki eitt um það að vera áhugasamt um Carnegie því norski fjárfestingarbankinn ABG Sundal Collier tilkynnti í gær að hann hefði eignast um 5,42% hlut í Carnegie. Þá sópaði Glitnir upp 1,8 milljónum hluta í Carnegie fyrir helgi, nærri tveggja prósenta hlut, að sögn Reuters. Óvíst er hvort Glitnir hafi verið að kaupa bréfin fyrir sjálfan sig eða þriðja aðila, til dæmis Invik," segir í Hálf fimm fréttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×