Viðskipti innlent

Skatturinn tekur til starfa um ára­mót eftir sam­einingu em­bætta

Atli Ísleifsson skrifar
Snorri Olsen ríkisskattstjóri mun leiða Skattinn.
Snorri Olsen ríkisskattstjóri mun leiða Skattinn. embætti ríkisskattstjóra

Alþingi samþykkti í gær lög sem greiða fyrir sameiningu embætta ríkisskattstjóra og tollstjóra. Mun sameinuð stofnun heita Skatturinn og á heimasíðu fjármála- og efnahagráðuneytisins er hún sögð verða öflug og leiðandi upplýsingastofnun á sviði skatta- og tollamála.

Um 470 manns munu starfa hjá Skattinum undir forystu núverandi ríkisskattstjóra, Snorra Olsen.

„Ljóst er að mikil tækifæri felast í því að álagning, innheimta og eftirlit sé á sömu hendi, en meginmarkmiðið með sameiningu embætta tollstjóra og ríkisskattstjóra er að bæta þjónustu. Stafræn þjónusta og sjálfvirknivæðing verður í forgrunni í sameinaðri stofnun, sem verður betur í stakk búin til að takast á við áskoranir til framtíðar en tvær minni sjálfstæðar stofnanir.

Þess er vænst að sameiningin skili auknum árangri við vettvangseftirlit tollgæslu og betri möguleikum til að takast á við stærri efnahagsbrot innanlands og yfir landamæri, s.s. peningaþvætti,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur er minnst á að stofnunum á sviði skatta og tolla hafi fækkað mikið undanfarinn áratug. Þannig hafi þær verið þrettán talsins árið 2009, en verða nú um áramótin þrjár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×