Viðskipti innlent

EasyPark kaupir Leggja

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Já

EasyPark hefur keypt bílastæðaþjónustuna Leggja en skrifað var undir kaupsamning í hádeginu í dag. EasyPark er það með orðin nýjasta bílastæðaþjónusta landsins og færir út kvíarnar á heimsvísu. Þegar er fyrirtækið með umfangsmikla starfsemi í Evrópu en hægt er að nota þjónustu EasyPark í rúmlega 1.300 borgum í 18 löndum.

Notendur Leggja munu fá boð um að skipta yfir í EasyPark appið á næstu mánuðum. Leggja appið mun þó virka samhliða hinu um einhvern tíma.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Já hf., sem keypti Leggja árið 2017. Leggja var stofnað af hugbúnaðarfyrirtækinu Stokki árið 2008.

„Við erum mjög stolt af Leggja og þökkum landsmönnum afar jákvæðar viðtökur,“ segir Vilborg Helga Harðardóttir, forstjóri Já í áðurnefndri yfirlýsingu. „Með kaupum EasyPark á Leggja verður viðskiptavinum boðið upp á að nýta sömu þjónustu víðar sem auðveldar landsmönnum að leggja í útlöndum og sömuleiðis ferðamönnum að leggja hérlendis. EasyPark er leiðandi á þessu sviðið með lausn og þjónustu í stöðugri þróun sem Íslendingar munu njóta góðs af. Þetta er því mjög spennandi breyting fyrir viðskiptavini Leggja.“

Johan Birgersson, forstjóri EasyPark segir starfsmenn fyrirtækisins ánægða með kaupin og unnið hafi verið að þessu í töluverðan tíma.

„Kaupin á Leggja undirstrika öran vöxt EasyPark. Við erum staðráðin í að veita ökumönnum, rekstraraðilum bílastæða og sveitarfélögum á Íslandi sömu framúrskarandi þjónustu og EasyPark er löngu orðið þekkt fyrir um alla Evrópu.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×