Bíó og sjónvarp

Ingvar laut í lægra haldi fyrir Antonio Banderas

Eiður Þór Árnason skrifar
Ingvar og Ída Mekkín leika afa og barnabarn í kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur.
Ingvar og Ída Mekkín leika afa og barnabarn í kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur. MYND/PIERRE CAUDEVELLE

Leikarinn Ingvar E. Sigurðsson laut í lægra haldi fyrir spænska stórleikaranum Antonio Banderas á evrópsku kvikmyndaverðlaununum í kvöld þegar sá síðarnefndi var valinn leikari ársins á hátíðinni. RÚV greindi fyrst frá.

Ingvar var tilnefndur fyrir leik sinn í íslensku kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur en Banderas hlaut verðlaunin fyrir frammistöðu sína í myndinni Pain and Glory eftir spænska leikstjórann Pedro Almodóvar. Verðlaunin eru ein virtustu kvikmyndaverðlaun í Evrópu og voru afhent í 32. sinn í Berlín í kvöld við hátíðlega athöfn.

Sjá einnig: Ingvar E. Sigurðsson tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

Tveir Íslendingar hafa hlotið verðlaun á hátíðinni – Hilmar Örn Hilmarsson fyrir tónlistina í Börnum náttúrunnar og Björk Guðmundsdóttir sem besta leikkonan í Dancer in the Dark.

Þá hafa nokkrir til viðbótar verið tilnefndir í gegnum tíðina en Ingvar sjálfur hefur áður verið tilnefndur, þá fyrir leik sinn í Englum alheimsins og í Kaldaljósi.

Rætt var við Ingvar í byrjun nóvember þegar tilkynnt var um tilnefningu hans. Sagði hann þá tilnefninguna vera mikinn heiður fyrir sig og íslenska kvikmyndagerð.

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason hefur vakið mikla athygli bæði á innlendum og erlendum vettvangi.


Tengdar fréttir

Hvítur, hvítur dagur framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Kvikmyndin Hvítur, hvítur dagur verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2020. Hlaut hún afgerandi sigur í rafrænni atkvæðagreiðslu um framlag Íslands, en það eru meðlimir í ÍKSA, Íslensku kvikmynda og sjónvarpsakademíunni sem hafa kosningarétt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.