Viðskipti innlent

Icelandair setur stefnuna á enn meiri sjálfvirkni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Icelandair ætlar meðal annars að fjölga karlflugþjónum og samræma reglur um milli kynja varðandi einkennisfatnað starfsmanna.
Icelandair ætlar meðal annars að fjölga karlflugþjónum og samræma reglur um milli kynja varðandi einkennisfatnað starfsmanna. Vísir/vilhelm
Þrátt fyrir aukna sjálfvirknivæðingu í rekstri flugfélaga eru ágætis atvinnuhorfur í greininni að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair. Þó svo að það „séu alltaf sveiflur í þessu eins og við þekkjum“ þá sé gert ráð fyrir vexti til lengri tíma í fluggeiranum. Flugfélagið hefur einsett sér að auka sjálfvirkni í reksti sínum og því fyrirséð að störf hjá flugfélaginu muni breytast.

Þau Bogi og Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Icelandair, ræddu nýja jafnréttisstefnu flugfélagsins á Bítinu í Bylgjunni í morgun. Icelandair ætlar meðal annars að fjölga karlflugþjónum og samræma reglur milli kynja varðandi einkennisfatnað starfsmanna. Auk þess stendur til að fjölga konum í stjórnunarstöðum, enda er „margsannað að fjölbreytni á vinnustað skilar sér í betri ákvarðanatöku,“ eins og Elísabet komst að orði við Fréttablaðið í morgun. 

Meðal þess sem drepið er á í nýju stefnunni er að auka enn frekar sjálfvirkni í rekstri félagsins, sem gengið hefur ágætlega að sögn Boga. Sú vinna er þegar hafin og hefur skipulagi Icelandair meðal annars verið breytt í þá átt - „að ná betri árangri,“ eins og Bogi kemst að orði.

Sjá einnig: Enginn mun verða skikkaður í hælaskó

Hann segir að von sé á miklum breytingum í þessum efnum; öll innritun og allt það sem farþeginn gerir verður sjálfvirkara en þekkist nú. „Farþeginn mun gera miklu meira sjálfur í framtíðinni, þannig að þessi partur af ferðalaginu mun breytast,“ segir Bogi og bætir við að því sé fyrirséð að störf muni eitthvað breytast líka.

Röðum mun þá fækka væntanlega?

„Já, ég held að þú munir ganga í gegnum flugvöllinn vonandi - án þess að fara í röð. Þú þarft ekki að innrita þig, þetta mun verða sjálfvirkara. Stefnan er sett þangað og við erum að sjá það á ýmsum flugvöllum sem eru komnir lengst að þetta orðið talsvert sjálfvirkt,“ segir Bogi.

Spjall þeirra Elísabetar við Bítið má heyra hér að neðan.


Tengdar fréttir

Enginn mun verða skikkaður í hælaskó

Icelandair tilkynnti á nýafstöðnu Heimsþingi kvenleiðtoga fyrirheit sín um kynjajafnrétti. Fyrirtækið ætlar meðal annars að fjölga karlflugþjónum og samræma reglur um milli kynja varðandi einkennisfatnað starfsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×