Viðskipti innlent

Telja ósannað að Extra tyggjó sé nú betra fyrir tennurnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heildsalan Innnes stendur að innflutning Extra tyggjós til landsins. Neytendastofa telur ósannað að það sé nú betra fyrir tennurnar en áður.
Heildsalan Innnes stendur að innflutning Extra tyggjós til landsins. Neytendastofa telur ósannað að það sé nú betra fyrir tennurnar en áður. INNNES
Heildsalan Innnes er talin hafa gerst brotleg við lög með fullyrðingum framkvæmdastjóra þess um að Extra tyggjó sé nú betra fyrir tennurnar og tannheilsu. Neytendasamtökin kröfðust þess að fullyrðingarnar yrðu dregnar til baka því væru ósannaðar og til þess fallnar að hafa áhrif á neysluhegðun fólks. Neytendastofa féllst þó ekki á þá kröfu heldur gerði Innness aðeins að forðast sambærilegar fullyrðingar í framtíðinni, ellegar eiga von á sektum.

Málið má rekja til ummæla Páls Hilmarssonar, markaðsstjóra framkvæmdasviðs hjá Innness, á mbl í vor. Þar réttlæti hann minni Extratyggjópoka með því að tyggjóið hafi verið fært upp um gæðaflokk. Tyggjóið væri nú orðið betra fyrir tennurnar því búið væri að kalkbæta það. Neytendasamtökunum fannst þessi fullyrðing villandi og fóru þau þess á leit við Neytendastofu að Innnes yrði gert að draga fullyrðinguna til baka.

Það gerði Páll í bréfi til Neytendastofu. Hann afsakaði fullyrðingar sínar á þá leið að spjall sitt við Morgunblaðið hafi verið óundirbúið og því ekki haft tíma til að undirbúa sig. „Olli þetta því að í svörum undirritaðs hafi hann notað tiltekin orð og yfirlýsingar sem ekki hafi verið algerlega réttar og hafi ekki gefið fyllilega rétta mynd af umræddu Extra tyggjói og eiginleikum þess,“ eins og segir í úrskurði Neytendastofu.

Páll Hilmarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá Innnes, segist harma ummæli sín. Honum hafi ekki gefist færi á að undirbúa sig fyrir viðtalið þar sem hann greip til ónákvæmra fullyrðinga.
Ummæli hans í viðtalinu endurspegluðu þar að auki ekki formlega afstöðu fyrirtækisins í þessum efnum og væru þau ekki hluti af markaðsherferð þess.

Aftur á móti segist Páll vera sannfærður um „kosti þess þess að tyggja sykurlaust tyggjó og byggi hann það á gögnum sem honum voru fengnar af Mars Inc. sem sýni fram á ávinning þess að tyggja sykurlaust tyggjó.“ Honum þykir hins vegar miður að ummæli hans hafi valdið misskilningi og segir að „hann hefði ekki átt að setja fram sem opinbera yfirlýsingu varðandi eiginleika varanna.“

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að umrædd ummæli um að tyggjóið sé betra fyrir tennurnar séu ósannaðar og því hafi Páll veitt „ rangar upplýsingar um helstu einkenni vörunnar.“ Upplýsingarnar séu líklegar til að valda því að „hinn almenni neytandi sem auglýsingarnar beinast að, taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið. Þá eru fullyrðingarnar líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda,“ eins og það er orðað í úrskurði Neytendastofu.

Páll sagði í samskiptum sínum við Neytendastofu að hann væri allur að vilja gerður til að draga fullyrðingu sína til baka á opinberum vettvangi. Neytendastofa taldi þess þó ekki þörf, ummælin væru ekki hluti af formlegri markaðssetningu Innnes, sem og að teknu tilliti til meðalhófs og jafnræðis.

Þess í stað var Innnes aðeins bannað að endurtaka fullyrðingar um að Extra tyggjó sé nú betra fyrir tennur og tannheilsu. Verði ekki farið að banninu má búast við að tekin verði ákvörðun um sektir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×