Körfubolti

Fékk sýkingu sem kemur upp í 1% tilfella

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur Kár fékk sýkingu í kjölfar hnéaðgerðar.
Dagur Kár fékk sýkingu í kjölfar hnéaðgerðar. vísir/bára
Óvíst er hvenær körfuboltamaðurinn Dagur Kár Jónsson getur leikið aftur með Grindavík.

Dagur fór í aðgerð á hné um miðjan mánuðinn. Eftir tvo daga heima fór hann aftur á spítalann vegna mikilla verkja. Þá kom í ljós að hann var kominn með sýkingu í liðinn.



„Aðgerðin gekk vel en eftir tvo daga fór ég upp á spítala með óbærilegan verk. Þeir sáu þá að ég var kominn með sýkingu og ég fékk sýklalyf,“ sagði Dagur í samtali við Vísi.

Að hans sögn var aðgerðin einföld og aukaverkanirnar fátíðar.

„Þetta er ótrúlega sjaldgæft. Læknarnir sögðu að þetta kæmi ekki upp nema í svona 1% tilvika. Þetta er fáránlega mikil óheppni,“ bætti Dagur við.

Garðbæingurinn hefur nú verið rúmliggjandi á spítala í viku. Búist var við að hann yrði frá í um sex vikur eftir aðgerðina en eftir þetta bakslag er óvíst hvenær hann snýr aftur á parketið.

„Ég veit ekki hvenær ég verð klár aftur. Það er mjög erfitt að segja. Þetta er svekkjandi en ég er allavega í réttum höndum,“ sagði Dagur sem gekk í raðir Grindavíkur frá austurríska liðinu Flyers Wels í sumar.

Í sjö leikjum í Domino's deildinni í vetur er Dagur með 12,4 stig, 3,0 fráköst og 6,0 stoðsendingar að meðaltali. Hann er sjöundi stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.


Tengdar fréttir

Dagur Kár frá næstu sex vikur

Dagur Kár Jónsson mun ekki spila með Grindvíkingum í næstu leikjum í Domino's deild karla vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×