Viðskipti innlent

Loka reikningum Íslendinga vegna gráa listans

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að vera í viðskiptum við bandaríska uppgjörsfyrirtækið Apex Clearing Corporation.
Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að vera í viðskiptum við bandaríska uppgjörsfyrirtækið Apex Clearing Corporation. Vísir/getty
Erlend verðbréfafyrirtæki hafa slitið viðskiptasamböndum við Íslendinga og lokað verðbréfa­reikningum þeirra vegna veru Íslands á gráum lista alþjóðlega hópsins FATF. Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að vera í viðskiptum við bandaríska uppgjörsfyrirtækið Apex Clearing Corporation.

Íslendingur sem var með verðbréfareikning hjá bandaríska fyrirtækinu Tastyworks fékk tölvupóst frá fyrirtækinu um liðna helgi, sem Markaðurinn hefur undir höndum, þar sem tilkynnt var um lokun reikningsins. Ástæðan sem var gefin upp var sú að Apex hefði sett Ísland á bannlista vegna veru landsins á gráa listanum.

Annar Íslendingur í viðskiptum hjá bandaríska verðbréfafyrirtækinu Firstrade fékk einnig skilaboð um lokun á verðbréfareikningi sínum hjá fyrirtækinu. Í skilaboðunum segir að reikningnum hafi verið lokað vegna nýlegra stefnubreytinga hjá Apex. Stefnu fyrirtækisins hafi verið breytt í samræmi við gráa lista FATF.

Stjórnvöld vinna nú að því að uppfylla skilyrði FATF og er vonast til þess að Ísland komist af listanum í febrúar á næsta ári. Þegar greint var frá því að Ísland gæti farið á gráa listann var lagt mat á möguleg áhrif. Það var samdóma álit stjórnvalda og erlendra ráðgjafa að áhrifin yrði óveruleg og var hvorki talið að niðurstaðan hefði bein áhrif á almenning né fjármálastöðugleika á Íslandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×