Körfubolti

Falur: Fullt af fólki hérna hrætt við lætin

Ísak Hallmundarson skrifar
Stuðningsmenn ÍR láta vel í sér heyra
Stuðningsmenn ÍR láta vel í sér heyra vísir/bára
Fjölnir tapaði fyrir ÍR 92-80 í Domino's deild karla í kvöld. Eftir leikinn talaði Falur Harðarsson, þjálfari Fjölnis, um að fólk hefði verið hrætt við lætin í stuðningsmönnum ÍR, meðal annars dómararnir.

„Við vorum ekki nógu sterkir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir náðu forskoti sem var erfitt að elta allan leikinn. Við náðum svona tvisvar eða þrisvar niður í 5 stig og þá náðu þeir að breyta eða við ekki að halda áfram. Ég er bara ósáttur við hvernig við byrjuðum leikinn,“ sagði Falur Jóhann Harðarson þjálfari Fjölnis eftir leik.

Það heyrist ávallt mikið í stuðningssveit ÍR sem kalla sig „Ghetto Hooligans“ en Falur segir ákveðna aðila hafa verið hrædda við þá:

„Það vorum ekki bara við, það var fullt af fólki hérna hrætt við lætin, þar á meðal tveir dómarar. Þeir þorðu ekki að dæma, það var ekki fyrr en ég fór að rífast í þeim að þeir byrjuðu að dæma.“

Falur var ánægður með framlag Srdan Stojanovic sem skoraði 30 stig í leiknum.

„Ég vil að allir spili af sami krafti og Srdan. Hann spilar alveg fram í síðasta blóðdropa og er núna brjálaður inni í klefa. Ég vil að allir séu svoleiðis en því miður er það ekki þannig. Ég hef sagt það áður, við þurfum fleiri stig frá fleiri mönnum.“

Hann segir mótið hvergi nærri búið fyrir sína menn:

„Ætli það sé ekki búið 40% af því. ÍR-ingar voru syngjandi söngva hérna um að við séum fallnir, en þetta er ekki búið. Þetta er ekki búið fyrr en eftir síðasta leik, við höldum áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×