Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍR 23-20 | Valsmenn héldu haus í spennuleik á Hlíðarenda

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Ýmir Örn Gíslason.
Ýmir Örn Gíslason. Vísir/Daníel
Valur vann sterkan þriggja marka sigur á ÍR á Hlíðarenda í kvöld, 23-20. Leikurinn var spennandi á lokakaflanum eftir að ÍR vann sig inní leikinn og jafnaði þegar lítið var eftir af leiknum. Valur hafði sterkari taugar á lokakaflanum og fagnaði innilega sigrinum

Valur byrjaði þennan leik af miklu öryggi og spilaði hreint út sagt stórkostlegann varnarleik. ÍR tókst aðeins að skora tvö mörk á fyrstu 20 mínútum leiksins og staðan á þeirra sóknarleik léleg. Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, tók sitt annað leikhlé þegar rúmar 20 mínútur voru búnar af leiknum og staðan þá 8-2.

ÍR komst í gang á loka kafla fyrri hálfleiks og var aðeins fjórum mörkum undir í hálfleik, 11-7. 

Síðari hálfleikurinn spilaðist eins og frá var horfið úr fyrri hálfleik, ÍR hélt áfram að elta leikinn en heimamenn náðu að halda þeim í góðri fjarlægð lungað af síðari hálfleik. Það var ekki fyrr en undir lok leiks sem ÍR jafnaði leikinn, í stöðunni 20-20. Fimm mínútur voru þá til leiksloka og fjarað hafði verulega undan leik Valsmanna. 

Ólíkt því sem gerst hefur í leikjum Vals á tímabilinu að þá héldu leikmenn haus og misstu leikinn ekki frá sér að þessu sinni. Hreiðar Levý Guðmundsson varði mikilvæga bolta á loka mínútunum sem skilaði Val þriggja marka sigri að lokum, 23-20. 

Af hverju vann Valur?  

Loksins kom að því að Valur kláraði jafnan leik, þeir hafa alltaf misst leiki frá sér en þeir sýndu karakter í dag og kláruðu leikinn sem þeir höfðu haft í höndum sér mest allan leikinn. 

Hverjir stóðu upp úr?

Vörnin hjá Val var frábær lengst af í leiknum, Þorgils Jón Svölu Baldursson, Ýmir Örn Gíslason og Alexander Örn Júlíusson mynduðu saman þéttann vegg sem lét leikmenn ÍR líta út eins og smá stráka á köflum. 

Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Vals, átt enn og aftur frábæra innkomu. Hann spilaði restina af leiknum og var þeim mikilvægur hlekkur í þessum sigri, hann varði tvívegis, á loka mínútum leiksins, dauðafæri frá leikmönnum ÍR. 

Bergvin Þór Gíslason var drifkrafturinn í sóknarleik ÍR og ástæðan fyrir því að þeir komust inní leikinn í fyrri hálfleik. 



Hvað gekk illa?
 

Eins og áður sagði þá var sóknarleikur ÍR skelfilegur í upphafi leiks. Það lagaðist og þeir fóru að spila hraðari sóknarleik sem skilaði mörkum en þeir voru lengst af í vandræðum með uppstilltan sóknarleik. 

Hvað er framundan? 

ÍR heldur áfram í erfiðu prógrammi í næstu umferð er liðið fær Eyjamenn í heimsókn í Austurberg. Á sama tími mætir Valur botnliði HK í Kórnum.

 

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsvísir/daníel
Snorri Steinn: Eina meðalið er að vinna leiki

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var virkilega ánægður með frammistöðu sinna manna eftir sterkan sigur á ÍR. Hann segist vera stoltur af því að strákarnir hafi loksins klárað jafnan leik

„Það er nánast eingöngu það sem ég tek með mér eftir þennan sigur“ sagði Snorri Steinn aðspurður út það að nú loksins hafi strákarnir klárað jafnan leik með sigri 

„Það eru nákvæmlega þessir leikir sem við höfum ekki verið að ná að klára í vetur. Fyrir utan þessa tvo sigurleiki fram að þessum leik þá hafa allir leikirnir okkar verið svona en við klúðrað þeim. Við höfum verið með yfirhöndina lungað af leikjunum en ekki klárað þá svo fyrir okkur er þetta gríðalega mikilvægur sigur í dag“ 

„Ég viðurkenni það alveg að það fór alveg um mig á kafla en ég er hrikalega ánægður og stoltur af strákunum að hafa klárað þetta“ 

Eftir að hafa tapað stigum í jöfnum leikjum gegn FH, Selfossi, ÍBV og Haukum segir Snorri sigurinn í dag sýna mikið batamerki á liðinu og þetta sé besta meðalið fyrir strákana eftir slakt gengi að undanförnu

„Við erum búnir að vera í smá vandræðum og eina meðalið þannig séð er að vinna leiki, þú getur æft og talað eins og þú vilt en þú færð sjálfstraustið með því að vinna leiki. Þetta er það sem við þurfum á að halda og sérstaklega vinna svona leik, það gefur okkur meira en að vinna með 10 mörkum“ sagði Snorri Steinn að lokum

 

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, mætti í viðtal í dagvísir/vilhelm
Bjarni Fritz: Við vorum með leikinn í okkar höndum

„Það eru einstaka leikmenn sem gera gæfumuninn í svona leikjum“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, eftir tapið gegn Val í kvöld

„Við spiluðum góða vörn heilt yfir þarna í byrjun leiks og það heldur okkur inní leiknum því sóknarleikurinn var mjög slakur“ sagði Bjarni um slaka byrjun sóknarlega hjá sínu liði, þeir skoruðu aðeins 2 mörk á rúmlega 20 mínútum

„Við lögðum mikla áherslu á varnarleikinn eftir síðasta leik, við vildum koma honum aftur í sitt horf. Ég veit ekki hvort við höfum þá ekki lagt næga áherslu á sóknarleikinn fyrir leikinn en mér fannst tempóið hægt og þetta var fyrirsjáanlegt hjá okkur.“

„Það sem breyttist svo hjá okkur er að Siggi kemur inní markið, við erum ekki komnir með varinn bolta þarna og Beggi stígur upp og dregur liðið inní leikinn“ sagði Bjarni sem hrósar þar markverði sínum, Sigurði Ingibergi Ólafssyni og Bergvini Þór Gíslasyni fyrir að snúa leik ÍR til hins betra í fyrri hálfleik.  

„Ég var allan tímann bjartsýnn að þetta myndi koma hjá okkur og að við myndum ná yfirhöndinni því mér fannst þeir vera í miklu basli. Við vorum eiginlega með leikinn í okkar höndum en fórum svakalega illa að ráði okkar í stöðunni 17-14 þegar við hefðum hæglega geta tekið leikinn yfir.“ sagði Bjarni sem segir sína menn hafa farið með 6-7 góðar sóknir á þessum tíma sem hefði hleypt þeim langt

Bjarni segir liðin vera svipuð á gæðum og að það séu einstaka leikmenn sem gera gæfumuninn í svona viðureignum, hann segir Bergvin Þór hafa gert gæfumuninn fyrir þá í dag en að Hreiðar Levý Guðmundsson sé ástæðan fyrir sigri Vals

„Þegar að tvö góð lið erum að spila þá eru það góðir leikmenn sem gera gæfumuninn og Bergvin gerir gæfumuninn fyrir okkur að koma okkur inní leikinn. Hreiðar gerir gæfumuninn fyrir þá að verja þessi tvö dauðafæri frá okkur þar sem við hefðum mögulega getað stolið leiknum“

„Þannig að í enda dagsins er það eiginlega það sem skilar þeim sigrinum, þessar vörslur frá Hreiðari í dauðafærum frá okkur“ sagði Bjarni

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira