Lífið

Skikkar dóttur sína ár­lega til kven­sjúk­dóma­læknis og „lætur kanna í henni meyjar­haftið“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rapparinn T.I. hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sín.
Rapparinn T.I. hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sín. Vísir/Getty
Bandaríski rapparinn T.I. hefur vakið undrun, og í mörgum tilvikum hneykslan, með frásögn sinni af heimsóknum átján ára dóttur sinnar til kvensjúkdómalæknis. Rapparinn kveðst fylgja dóttur sinni reglulega til læknisins til að „láta kanna meyjarhaftið“ í henni.

T.I. ræddi málið þegar hann var gestur í hlaðvarpsþættinum Ladies Like Us. Í samtali um uppeldisaðferðir, sem leiddist út í umræðu um kynfræðslu, sagðist hann hafa rætt kynlíf við dætur sínar. T.I. á þrjár dætur, þar af hina átján ára Deyjuh Imani Harris, sem hér um ræðir.

„Hef ég gert það? Við förum… Deyjah er átján ára og er nýútskrifuð úr menntaskóla, nú er hún á fyrsta ári í háskóla, og að þreifa fyrir sér sjálf. Og já, við höfum ekki aðeins átt þessar samræður, við förum árlega til kvensjúkdómalæknisins til þess að láta kanna í henni meyjarhaftið.“

Í framhaldinu minntist T.I. tiltekinnar heimsóknar til læknisins þegar Deyjah var sextán ára.

„Við fögnum stuttu eftir afmælið hennar, venjulega daginn eftir veisluna, hún nýtur gjafanna, ég set miða á hurðina hjá henni: „Kvensjúkdómalæknir, á morgun, 9:30“. Við förum [til læknisins] og setjumst niður og læknirinn kemur og talar, og þú veist, læknar viðhalda háu stigi fagmennsku. Hann segir: „Þú veist það, herra, að til þess að ég geti deilt upplýsingum…“ Ég segi: „Deyjah, þau vilja að þú skrifir undir þetta, svo við getum deilt upplýsingum. Er eitthvað sem þú myndir síður vilja að ég viti?“,“ sagði T.I.

Þá kvaðst hann meðvitaður um að hið svokallaða meyjarhaft, sem í gegnum tíðina hefur verið haldið uppi sem nokkurs konar skírlífistákni, geti rofnað við ýmis tilefni, ekki bara kynferðislegar athafnir.

„Ég sagði: „Sjáðu til, læknir, hún fer ekki á hestbak, hún hjólar ekki, hún spilar ekki íþróttir, maður. Líttu bara á meyjarhaftið og láttu mig hafa niðurstöðurnar.“ […] Og ég skal segja ykkur það að nú, frá og með átján ára afmælinu, er meyjarhaft hennar enn á sínum stað.“

T.I. hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þessa frásögn sína. Samfélagsmiðlanotendur hafa margir bent á að með þessu hlutgeri hann dóttur sína, brjóti á rétti hennar til einkalífs og innræti í hana afar skaðlegt viðhorf til kynlífs og eigin líkama. Einhverjir ganga svo langt að flokka tilburði rapparans sem ofbeldi.

Þá bendir bandaríski kvensjúkdómalæknirinn Jennifer Gunter á að meyjarhaftið sé almennt alls ekki merki um að kona sé hrein mey. Helmingur unglinga sem stundað hafa kynlíf hafi enn órofið meyjarhaft. Þá eigi hugmyndin um meyjarhaftið ekki rætur sínar í vísindum heldur hættulegri hugmyndafræði úr iðrum feðraveldis.

Hluta úr þræði Gunter um meyjarhaftið má lesa hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.