Handbolti

Markvarðarþjálfari íslenska handboltalandsliðsins fór á kostum með gítarinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tomas Svensson með gítarinn.
Tomas Svensson með gítarinn. Skjámynd/Youtube/SC Magdeburg
Tomas Svensson er aðeins einn besti handboltamarkvörður sögunnar og margfaldur heims- og Evrópumeistari með Svíum. Hann er einnig liðtækur með gítarinn.

Tomas Svensson hefur unnið mikið með Guðmundi Guðmundssyni á síðustu árum, fyrst hjá þýska félaginu Rhein-Neckar Löwen og svo aftur hjá danska landsliðinu. Tomas Svensson gerðist síðan markvarðarþjálfari íslenska landsliðsins þegar Guðmundur tók aftur við árið 2018.

Youtube-síða þýska félagsins SC Magdeburg er reglulega með skemmtileg viðtöl undir merkinum Spielfrei og sænski markvarðarþjálfarinn var gesturinn í þætti nítján. Stephan Michme ræddi við hann en Tomas Svensson er í dag aðstoðarþjálfari Magdeburg-liðsins.

Það var farið aðeins yfir afreksskrá Tomas Svensson inn á vellinum en hún er löng og glæsileg. Hann varð meðal annars heimsmeistari með Svíum 1990 og 1999 og Evrópumeistari 1994, 2000 og 2002. Svensson varð líka að sætta sig við þrjú silfur á Ólympíuleikum en vann Meistaradeildina sex sinnum.

Eftir smá yfirferð yfir ferilinn var komið að því að segja frá leyndum hæfileikm Tomasar Svensson en hann er líka fínasti tónlistamaður.

Tomas Svensson sagði frá því að hann hafi verið rokkari á sínum tíma og haldið meðal annars upp á þýsku þungarokkssveitina Scorpions. Svensson nefndi líka Queen og Bon Jovi en Þjóðverjinn sem tók viðtalið fékk hann til að spila lag með Scorpions.

Tomas Svensson er fínasti söngvari líka og tók líka eitt sænskt lag og lög með þeim Bruce Springsteen og Bryan Adams. Það má sjá tónlistarmanninn Tomas Svensson fara á kostum með gítarinn hér fyrir neðan en íslensku strákarnir fá hann örugglega til að spila fyrir sig í næsta landsliðsverkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×