Formúla 1

Uppgjör: Hamilton sigrar en þarf að bíða eftir titlinum

Bragi Þórðarson skrifar
Sigurinn í Mexíkó var tíundi sigur Hamilton á árinu
Sigurinn í Mexíkó var tíundi sigur Hamilton á árinu Getty

Lewis Hamilton stóð uppi sem sigurvegari í mexíkóska kappakstrinum um helgina. Með sigrinum er Hamilton aðeins fjórum stigum frá sínum sjötta heimsmeistaratitli í Formúlu 1.

Keppnin í Mexíkó var sú átjánda af tuttugu og einni í ár og var kappakstur helgarinnar afar líflegur. Hamilton ræsti fjórði og voru vinningslíkur hans taldar afar litlar, sérstaklega þar sem Mercedes liðinu hefur gengið frekar illa í Mexíkó síðastliðin ár.

Í ræsingunni þvingaði Sebastian Vettel Hamilton út á grasið og datt Bretinn því niður í fimmta sætið á fyrsta hring.

Slagurinn var harður á fyrstu hringjum Mexíkó kappakstursins Getty

Verstappen of djarfur enn eina ferðina

Max Verstappen átti ekki góða helgi í Mexíkó. Eftir að hafa tryggt sér ráspólinn í tímatökum var honum refsað um þrjú sæti fyrir að aka of hratt undir gulum flöggum.

Fyrir vikið ræsti Hollendingurinn þriðji og samstuð við Valtteri Bottas á fjórða hring varð til þess að Max sprengdi afturdekk og féll niður í síðasta sæti.

Á blaðamannafundi eftir kappaksturinn voru allir ökumenn sammála um að framúrakstur Verstappen var algjörlega glórulaus. Að lokum endaði Max sjötti, gríðarlega svekkjandi í keppni sem Red Bull bíllinn var mjög samkeppnishæfur.

Ferrari tapaði kappakstrinum á þjónustusvæðinu Getty

Ferrari með allt niðrum sig

Það varð ljóst á fjórða hring að Verstappen var ekki að fara vinna keppnina. Leit þá allt út fyrir nokkuð auðveldan sigur Ferrari er ökumenn liðsins sátu í fyrsta og öðru sæti og höfðu Ferrari bílarnir verið reglulega hraðari en Mercedes alla helgina.

Ítalska liðið ákvað þá að láta Charles Leclerc stoppa tvisvar í dekkjaskipti þrátt fyrir að Hamilton ætlaði bara að stoppa einu sinni.

Þessi ákvörðun var kolröng og til að bæta gráu ofan á svart tafðist Leclerc um 6 sekúndur í seinna stoppinu er liðsmenn hans voru of lengi að koma einu dekkinu undir Ferrari bílinn. Fyrir vikið endaði Leclerc í fjórða sæti eftir að hafa ræst á ráspól.

Vettel stoppaði aðeins einu sinni rétt eins og Hamilton. En Þjóðverjinn stoppaði frekar seint og hafði bara möguleika á að nota hörðustu dekkin. Þegar Sebastian kom aftur út á brautina úr þjónustusvæðinu var Hamilton langt á undan, má því segja að Ferrari hafi gefið Bretanum sigurinn á silfurfati.

Vettel endaði annar og Bottas þriðji. Úrslitin þýða að Hamilton vantar aðeins fjögur stig til viðbótar til að tryggja sér sinn sjötta heimsmeistaratitil í Formúlu 1. Takist Bottas ekki að sigra í næstu keppni verður Lewis meistari í Bandaríkjunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.