Golf

Met Nicklaus það eina sem Tiger vantar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tiger Woods ungur og brosmildur eftir að hafa unnið sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni í Las Vegas árið 1996, þá nýorðinn tvítugur, rétt rúmum sex vikum eftir að hann ákvað að gerast atvinnukylfingur.
Tiger Woods ungur og brosmildur eftir að hafa unnið sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni í Las Vegas árið 1996, þá nýorðinn tvítugur, rétt rúmum sex vikum eftir að hann ákvað að gerast atvinnukylfingur. Nordicphotos/Getty
Um 23 árum eftir að Tiger Woods vann sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni sem tvítugt ungstirni tókst honum að jafna met Sams Snead um helgina þegar hann stóð uppi sem sigurvegari í 82. sinn á PGA-mótaröðinni á löngum og farsælum ferli.

Þetta var fyrsta mót Tigers í tæpa tvo mánuði eftir að hann gekkst undir aðgerð á hné í fimmta sinn á ferlinum og tókst honum að halda aftur af heimamanninum Hideki Matsuyama á lokakaflanum. Tiger leiddi með þremur höggum fyrir lokahringinn og í 25. sinn á ferlinum tókst honum að breyta þriggja högga forskoti í sigur, til þessa hefur engum öðrum tekist að vinna mót þegar Tiger leiðir með þremur höggum eða meira fyrir lokahringinn.

Tiger var ekki búinn að ná að fylgja eftir Masters-titlinum í vor og voru sjö mánuðir liðnir síðan hann kom í hús á 67 höggum eða minna þegar kom að mótinu í Japan. Tiger virtist oft þreytulegur og fór undir hnífinn í lok ágúst eftir að tímabilinu lauk á PGA-mótaröðinni til að leysa vandamál með vinstra hnéð.

Tiger í Japan.vísir/getty
Mótið í Japan var því frumraun hans á þessu tímabili og stóðst hann væntingar og gott betur en það. Tiger lék stöðugt og gott golf alla fjóra hringina þrátt fyrir að úrhellisrigning hafi sett strik í reikninginn og gert það að verkum að hann lék 26 holur á sunnudeginum og síðustu átta holurnar á mánudegi.

Tiger var skiljanlega stoltur af afrekinu þegar hann var spurður að því hvað sigurinn í Japan þýddi. „Það er ótrúlegt að hafa náð þessu, þetta eru ansi mörg mót. Þetta var langt mót, fimm dagar og ég fann fyrir pressunni,“ sagði Tiger léttur, aðspurður út í 82. sigurinn eftir mótið. „Sam var ennþá að á sextugsaldri, ég er á fimmtugsaldri og það sem þetta snýst um er stöðugleiki til margra ára,“ sagði Tiger um Snead sem hann hitti fyrst sem fimm ára gutti.

Það verður að teljast ansi líklegt miðað við spilamennsku síðasta árs að Tiger muni taka fram úr Snead og setja met sem verður ef til vill aldrei bætt. Tiger, sem er af flestum talinn einn besti kylfingur allra tíma, vantar eitt met til að sitja einn að krúnunni, með þremur risamótstitlum í viðbót jafnar hann met Jacks Nicklaus sem vann á sínum tíma átján risameistaratitla. T

akist Tiger að jafna „Gullbjörninn“ getur enginn efast um að Tiger er einn besti kylfingur allra tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×