Innkalla kjúkling vegna gruns um salmonellu

Reykjagarður hefur ákveðið að innkalla kjúkling vegna gruns um salmonellu. Um er að ræða kjúkling með rekjanleikanúmerunum 001-19-36-3-02 og 001-19-37-3-17, seldur undir vörumerki Holta, Kjörfugl og Krónan.
Grunurinn kom upp í reglubundnu eftirliti og greindist í tveimur kjúklingahópum. Í tilkynningu frá Reykjagarði segir að dreifing á afurðum hafi verið stöðvuð og sé innköllun hafin.
„Neytendur sem hafa keypt kjúklinga með þessu rekjanleikanúmeri eru beðnir að skila inn vörunni í viðkomandi verslun eða beint til Reykjagarðs Fosshálsi 1. 110 Reykjavík
Tekið skal fram að ef áprentuðum leiðbeiningum á umbúðum er fylgt er þessi kjúklingur hættulaus fyrir neytendur, passa þarf að blóðvökvi komist ekki í aðra matvöru og steikja vel í gegn.
Ekki liggur fyrir grunur um að aðrar afurðir hjá Reykjagarði séu mengaðar af Salmonellu,“ segir í tilkynningunni.