Viðskipti innlent

Stafrænni vegferð fylgir ný menning

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Erik segir að íþróttir hafi alltaf leikið stórt hlutverk í lífi sínu en í dag stundi hann mest hlaup.
Erik segir að íþróttir hafi alltaf leikið stórt hlutverk í lífi sínu en í dag stundi hann mest hlaup. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Svipmynd: Erik Figueras Torras



Nám: MSc í rafmagnsverkfræði frá UBP í Barcelona, MBA frá IMD í Lausanne, Sviss.

Störf: Framkvæmdastjóri Þjónustusviðs hjá Símanum. Áður en ég kom til Íslands vann ég sem vörustjóri farsímakerfa hjá Siemens í Þýskalandi og Bandaríkjunum og hjá Philips í Frakklandi. Ég var hjá Símanum árin 1999 til 2004 en sneri aftur og þá sem framkvæmdastjóri árið 2013.

Fjölskylduhagir: Giftur Björk Þórarinsdóttur viðskiptafræðingi og eigum við tvær dætur og bráðum hundinn Rio.

Erik Figueras Torras hefur verið framkvæmdastjóri hjá Símanum frá árinu 2013. Þar stýrir hann Þjónustusviði sem bæði rekur fjarskiptakerfi Símans og ber ábyrgð á að þjónusta viðskiptavini Símans. Erik segist vera hraðahindrun innan Símans, sem reyni að forgangsraða fjárfestingum og verkefnum þannig að þau svari sem best því sem viðskiptavinir kalli eftir.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Íþróttir hafa alltaf leikið stórt hlutverk í mínu lífi en í dag eru það hlaup sem ég stunda mest. Þegar ég var yngri spilaði ég tennis og stundaði skíði af miklum móð. Ég prófaði Bootcamp einu sinni en er augljóslega ekki skapaður fyrir slík átök. Konan mín hefur svo verið að draga mig út á golfvöll, sem er kannski meira ganga en íþrótt, en sjáum hvernig það endar.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Síðustu vikur hefur viljinn til að lifa hreinlega vakið mig flesta morgna þar sem ég byrja daginn í farþegasætinu á bílnum okkar. Dóttir mín er nefnilega í æfingaakstri og situr því í bílstjórasætinu. Þegar í vinnuna er komið vil ég helst byrja á því að ganga á milli fólks og taka púlsinn, heyra hvernig miðar og hvað það hefur til málanna að leggja, áður en rútínan og daglegt amstur tekur völdin.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Mamma mín, sem lærði heimspeki, skrifaði fyrir mig bók sem ég fékk að gjöf þegar ég varð fertugur. Hún heitir „El sentido de la vida“ (ísl. Tilgangur lífsins) og þessi einstaka 115 blaðsíðna og eina útgáfa sem til er af bókinni fjallar um allt það sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Besta gjöf sem ég hef fengið.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin hjá þér á síðustu mánuðum?

Við hjá Símanum höfum verið í stórum umbreytingarverkefnum sem flest snúa að því að breyta ferlum og vörum þannig að þarfir viðskiptavinarins séu í forgrunni. Þessi stafræna vegferð sem svo mörg fyrirtæki eru að ganga í gegnum kallar líka á breytingar í menningu fyrirtækisins og í dag erum við öll að ganga betur í takt en áður. Við erum ekki að fara í fjárfestingar eða ný verkefni endilega tækninnar vegna heldur frekar vegna óska og þarfa viðskiptavinanna. Til að undirstrika mikilvægi góðrar þjónustu við viðskiptavini okkar var til dæmis nafni Tæknisviðs breytt í Þjónustusvið, hljómar smávægilegt en skiptir engu að síður máli.

Hvernig hefur rekstrarumhverfi Símans breyst á undanförnum árum og hvaða áskoranir hafa falist í þessum breytingum?

Í stafrænum heimi gerast breytingar æ hraðar og við höfum, þökk sé góðu starfsfólki, náð að tileinka okkar framsæknar lausnir hverju sinni. Fjarskiptaþjónustan í dag er gjörbreytt frá því sem var fyrir nokkrum árum, bæði gagnvart viðskiptavinum og séð okkar megin frá. Samkeppnin er ekki bara innanlands heldur erum við í beinni samkeppni við erlend stórfyrirtæki. Sjálfvirknivæðing, skýjalausnir og nýting gervigreindar er eitt af því sem við höfum tileinkað okkur sem getur skilað hagkvæmari rekstri, betri upplifun og þjónustu.

Hvaða tækifæri eru fram undan á þínu sviði?

Tækifærin í tækni og þjónustufyrirtækjum eru nær endalaus. Það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi á leiðinni sem samstarfsfélagar mínir vilja stökkva á. En það er kannski eitt af mínum hlutverkum að segja nei og forgangsraða, við getum ekki gert allt í einu. Það þarf að meta hvað skiptir mestu máli og að það sem viðskiptavinurinn vill fái óskipta athygli okkar. En mér finnst sjálfvirknivæðingin spennandi því hún bestar hlutina og minnkar endurtekna vinnu fyrir starfsfólkið mitt, það getur þá einbeitt sér að þarfari og áhugaverðari hlutum. 5G er auðvitað út við sjóndeildarhringinn og við fylgjumst vel með því en svo má nefna hlutanet (e. Internet of Things), ýmsar nýjungar í Sjónvarpi Símans og aukna notkun gervigreindar og vélræns náms sem sýnir okkur hluti sem okkur gat aðeins dreymt um fyrir stuttu.

Hvers hlakkar þú mest til þessa dagana?

Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hlakka ég mest til þess að fá nýfædda fjölskyldumeðliminn, hvolpinn Rio, inn á heimilið. Við eigum von á Rio, sem er þýskur fjárhundur, eftir nokkrar vikur.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Vonandi verð ég enn í Hafnarfirði, steinsnar frá öllum þessum frábæru útivistarsvæðum og enn starfandi með öllu góða fólkinu hjá Símanum. Og enn betra verður ef ég hef náð á þessum tíma að láta gott af mér leiða sem víðast í samfélaginu. Það væri góður afrakstur fyrir Katalóna á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×