Umfjöllun og viðtöl: Valur - Selfoss 27-27 | Dramatískt jafntefli

Gabríel Sighvatsson skrifar
Vignir Stefánsson í hraðaupphlaupi.
Vignir Stefánsson í hraðaupphlaupi. vísir/daníel
Valur og Selfoss mættust í Origo höllinni í kvöld. Bæði lið komu inn í leikinn með tap á bakinu og því gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.

Leikurinn var frábær skemmtun allt frá upphafi til enda. Það var mikill hraði, hart tekist á og fengum við mikla dramatík í lokin.

Leikurinn byrjaði í járnum. Hvorugt liðið náði að festa tök á leiknum og voru fyrstu 20 mínúturnar ótrúlega jafnar.

Í lok fyrri hálfleiks átti Hreiðar Levý Guðmundsson stórkostlega innkomu í mark Vals sem hjálpaði þeim að byggja upp nokkurra marka forystu í hálfleik.

Í seinni hálfleik héldu Valsmenn áfram að herja á Selfyssinga. Gestirnir náðu að standast áhlaupið ágætlega og pössuðu sig á að missa Valsarana aldrei of langt fram úr sér.

Þegar korter var eftir var Valur með 6 marka forystu og virtust eiga sigurinn vísan. Á síðustu 10 mínútum glopruðu Valsmenn niður forystunni með ótrúlegri hrinu af tæknifeilum og slakri færanýtingu. Einar Baldvin Baldvinsson var stórkostlegur í marki Selfyssinga í þeim kafla.

Selfoss komst yfir þegar örfáar mínútur voru eftir en náðu ekki að skora úr lokasókninni sinni og því þurftu liðin að sætta sig við skiptan hlut í kvöld.

Árni Steinn Steinþórsson ógnar að marki Vals.vísir/daníel
Af hverju varð jafntefli?

Leikurinn var kaflaskiptur. Valur átti góðan kafla um miðbik leiksins á meðan Selfoss tók algjörlega yfir á lokakaflanum.

Þegar öllu er á botninn hvolft er jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða sem enginn er samt sáttur með.Hvað gekk illa?

Hér ber helst að nefna klaufaskap Vals á lokamínútunum. Það gekk ekkert upp hjá Val. Þeir fengu færi eftir færi til að skora en inn vildi boltinn ekki og inn á milli komu tæknifeilar.

Þeir voru á endanum óheppnir að missa forystuna niður en að sama skapi heppnir að ná að bjarga jafntefli.

Hverjir stóðu upp úr?

Þegar tölfræðin er skoðuð sést að Haukur Þrastarson va markahæstur í kvöld með 9 mörk. Hjá Val var Anton Rúnarsson markahæstur með 6 mörk, öll úr vítaskotum.

Hreiðar Levý var drjúgur í marki Vals með 9 varin skot sem samsvarar 45% vörslu. Hinum megin vallarins var Einar Baldvin Baldvinsson með 18 varin skot og svipaða prósentu.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru með nákvæmlega sömu byrjun, 3 stig eftir 3 leiki. Valur á aftur heimaleik í næstu umferð og taka þá á móti Eyjamönnum. Selfoss tekur á móti HK næstu helgi.

Snorri messar yfir sínum mönnum.vísir/daníel
Svekktur Snorri tók stiginu þó þakklátur

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var vægast sagt svekktur eftir 27-27 jafntefli gegn Selfoss í kvöld.

„Við vorum komnir í góða stöðu og með góð tök á leiknum. Svolitlir klaufar að hleypa þeim aftur inn í leikinn. Selfoss er með undirtökin undir lokin og hefðu getað unnið leikinn þannnig að ég er bara ánægður með þetta stig.“

Valsliðið var með leikinn í hendi sér en missti sigur niður í jafntefli á lokamínútunum.

„Við spiluðum ágætlega. Það sem gerist er að við fáum á okkur ódýra tæknifeila og klikkum (á færum).“

Snorri Steinn var ekki par sáttur með nýtingu Vals í kvöld og taldi það vera orsök tapaðra stiga á tímabilinu.

„Ég er mjög óánægður með nýtinguna okkar og færanýtinguna almennt. Það er ekkert bara sagan í þessum leik, við verðum bara að laga það og drengirnir vita það sjálfir. Það vantar mikið upp á þar og ég þori nánast að fullyrða það – án þess að vera búinn að greina leikinn – að ef við værum með aðeins eðlilegri færanýtingu þá værum við að landa þægilegum sigri.“

Þegar leiknum lauk rauk Snorri Steinn beint að dómara leiksins til að segja sína skoðun á einhverju sem Snorri var ósáttur með.

„Ég var örugglega að bulla eitthvað í hita leiksins. Það var fótur á Hauk og ég hélt það væri eitthvað eftir. Ég veit ekki hvort ég hafi haft rétt fyrir mér eða ekki.“

Valur byrjar tímabilið með 3 stig eftir jafnmarga leiki sem er ekki slæmt en ekki frábært.

„Ég er gríðarlega óánægður með einn leik af þessum þremur og hann truflar mig. Strákarnir svöruðu því vel í dag og eiga hrós skilið. Eðlilega eftir frammistöðuna á móti FH var þetta þung vika en þeir komu vel inn í þennan leik og löguðu fullt af hlutum og það voru klárlega batamerki á leik okkar.“

Grímur Hergeirsson ræðir við sína menn í einu af þremur leikhléum sínum í kvöld.vísir/daníel
Grímur Hergeirs: Sættum okkur við stigið

Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, vildi fá sigur úr leiknum í dag.

„Við áttum kost á að taka bæði stigin og maður er svekktur yfir að ná því ekki. Við vorum lentir 6 mörkum undir um miðjan seinni hálfleik og ég er hrikalega ánægður með strákana að stíga upp og koma til baka, það er mjög vel gert.“ sagði Grímur.

„Ég hefði viljað fá bæði stigin eins og þetta endaði en við tökum þetta eina stig sem við fáum út úr þessu og verðum bara að sætta okkur við það. Svona er þetta.“

Selfoss liðið byrjaði seinni hálfleikinn illa en steig upp undir lokin og var ótrúlega nálægt því að vinna leikinn.

„Við vorum lélegir í byrjun seinni hálfleiks. Við náum að rífa okkur í gang, vörnin er frábær síðasta korterið. Það er ótrúleg vinnsla og formið kemur í ljós.“

„Ég er mjög sáttur með það og stórt hrós á strákana með það er karakter að stíga upp á erfiðum útivelli á móti Valsliðinu sem er gott lið.“

„Við hefðum viljað fá stigin í dag og ef allt væri fullkomið værum við með 6 stig en við erum með 3 og búnir að spila erfiða leiki. Við sættum okkur við það sem við fáum en viljum alltaf meira.“ sagði Grímur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.