Körfubolti

Litháar brjálaðir og kvörtuðu yfir dómgæslunni til FIBA: „Þetta er fokking brandari“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Dainius Adomaitis var heitt í hamsi á blaðamannafundi eftir leikinn
Dainius Adomaitis var heitt í hamsi á blaðamannafundi eftir leikinn vísir/getty
Litháen er úr leik á HM í körfubolta eftir tap fyrir Frakklandi. Á lokamínútum leiksins fékk litháenska liðið styttra stráið þegar kom að ákvörðunum dómarans og lét þjálfari liðsins dómarann heyra það á blaðamannafunid í leikslok.

Frakkland hafði verið 16 stigum yfir í þriðja leikhluta en Litháar komu með sterka endurkomu og áttu möguleika á því að jafna leikinn 76-76. Leiknum lauk með 75-78 sigri Frakklands.

Jonas Valanciunas var á vítalínunni og gat jafnað í 76-76. Skot hans dansaði aðeins á hringnum áður en Rudy Gobert sló það í burtu. Gobert snerti hringinn þegar hann stökk upp til þess að blaka boltanum frá. Samkvæmt reglum FIBA ætti það að þýða að Litháen hefði verið dæmd karfa.

Dómarar leiksins dæmdu hins vegar ekkert og létu leikinn halda áfram.

Landsliðsþjálfari Litháen, Dainius Adomaitis, var allt annað en sáttur eftir leikinn og fór mikinn á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Spyrjið FIBA út í dómgæsluna. Afhverju eru þið að spyrja mig út í dómgæslu?“ spurði reiður Adomaitis. „Þetta er annar leikurinn í röð, einn á móti Ástralíu þar sem við spiluðum rúgbý og svo núna má ekki einu sinni snerta andstæðinginn.“

„Þetta er fokking brandari. Þetta er ekki körfubolti. Til hvers eru þeir með þetta VAR kerfi? Þú þarft ekki að vera gáfaður, þú þarft að vera hreinskilinn.“

„Stoppið leikinn, farið og skoðið hvað gerðist.“

Litháenska landsliðið hefur sent inn formlega kvörtun til FIBA vegna málsins. Búist er við úrskurði frá FIBA á morgun, sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×