Viðskipti innlent

Allrahanda tapaði hálfum milljarði

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri Allrahanda.
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri Allrahanda. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson
Ferðaþjónustufyrirtækið Allrahanda GL, sem rekur Gray Line og Airport Express, tapaði 517 milljónum á síðast ári. Fyrirtækið á í viðræðum við viðskiptabanka sinn um endurskipulagningu lána.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Tap Allrahanda jókst verulega á milli ára en það nam 195 milljónum árið 2017. Tekjur námu 3 milljörðum króna og drógust saman um 19 prósent. Rekstrargjöld námu hins vegar 3,4 milljörðum og drógust saman um tæp 14 prósent. Eignir félagsins námu 2,5 milljörðum króna í árslok 2018 og eigið féð 473 milljónum.

Stærsti hluthafi Allrahanda með 49 prósenta hlut er fjárfestingarfélagið Akur og eru helstu hluthafar þess lífeyrissjóðir. Stofn­end­urnir Þórir Garðars­son og Sig­ur­dór Sig­urðsson eiga hvor 25 prósenta hlut.

Í ársreikningi kemur fram að skammtímaskuldir hafi verið hærri en veltufjármunir í lok síðasta árs en um mitt árið fóru stjórnendur félagsins í endurskipulagningu á rekstrinum til að jafna rekstrarhallann. „Sú vinna heldur áfram 2019 og mun koma til með að skila hagstæðari afkomu,“ segir í reikningnum.

Þá kemur fram að á þessu ári hafi hluthafar félagsins komið með aukið fjármagn og að samningar við viðskiptabanka félagsins um endurskipulagningu lána séu í vinnslu. „Það er mat stjórnenda þegar litið er til þeirra þátta sem áunnist hafa á árinu 2019 að framtíðarhorfur félagsins eru jákvæðar.“

Allrahanda og Reykjavík Sight­seeing Invest tilkynntu í júlí að félögin hefðu sent Samkeppniseftirlitinu greinargerð um fyrirhugaða sameiningu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×